Milljónastyrkur fyrir nemendur afreksins til Noregsferða

Það er okkur mikil ánægja að tilkynna að skólinn okkar í samstarfi við íþróttabraut framhaldsskólans í VOSS í Noregi hafa fengið NORDplus styrk. Styrkurinn er til 3ja ára og byggir á því að hópur nemenda frá Noregi koma hingað til lands og við förum út til þeirra. Norski skólinn á veg og vanda að umsókninni og er hún sniðin að handbolta og fótboltanemendum.

Fyrsta ferð er fyrirhuguð strax á næstu önn. Nánari upplýsingar um uppsetningu og framkvæmd koma í sumar og verkefnið fer á fullt strax á fyrstu vikum næstu hausthannar.

Til hamingju með þetta kæru nemendur,

Hlökkum til að fara til Noregs og læra!

Sveinn og kennarar

Landsliðsstyrkur fyrir vor 2018

Landsliðsstyrkur afreksíþróttasviðs var veittur nú fyrir helgi og þáðu 17 nemendur styrk. Eins og svo oft áður eru verkefnin fjölbreytt eins og greinarnar sem nemendur koma úr og hér er stutt samantekt.

Arnór Snær, Arnar Máni, Daníel Freyr, Viktor Gísli og Hafsteinn Óli kepptu með U18 ára handboltalandsliðinu og sigruðu Sparkassen mótið í Þýskalandi.

Bergrún Ósk keppti fyrir hönd Íþróttafélags fatlaðra á Ítalíu í 100, 200 og 400m hlaupi ásamt langstökki.

Brynjólfur Óli var á Tenerife með sundlandsliðinu í verkefni sem er liður í undirbúningi fyrir Summer Youth Olympics í október í Argentínu.

Daníel Sverrir Guðbjörnsson ásamt dansfélaga sínum urðu Austur-Bandaríkjameistarar 2018 og eru sem stendur í 13. sæti í Evrópu yfir sterkustu pörin.

Jóhann Árni og Valgeir Lunddal kepptu í milliriðli fyrir undankeppni Evrópumóts U17 í fótbolta. Þar spiluðu þeir við stórþjóðir í fótboltanum, Holland, Ítalíu og Tyrkland, en máttu sætta sig við tap að þessu sinni.

Viktor Andri og Ómar Castaldo  tóku þátt í æfingamóti á vegum U17 ára landsliðsins í fótbolta í Hvíta-Rússlandi þar sem 4 sigrar unnust og 1 tap var staðreyndin.

Ellert Kristján og Magnús Gauti eru úti í Grænlandi þegar þessi frétt er skrifuð að keppa í borðtennis fyrir Íslands hönd.

Jón Albert keppti í Króatíu með U18 ára landsliði Íslands í íshokkí. Leikið var á Heimsmeistaramóti 2. deild B og töpuðu Jón og félagar öllum sínum leikjum því miður.

Steindór Máni keppti með U20 í keilu í Katar í febrúar og Evrópumóti unglinga í Danmörku þar sem Steindór byrjaði mótið afar vel og endaði í 26. sæti, og rétt missti af þátttökurétt í Masternum sem 24. efstu sætin gáfu.

Frá 8. afhendinglandsliðsstyrks í Borgarholtsskóla 17. maí 2018. Efri röð frá vinstri, Daníel Sverrir, Viktor Gísli, Goði Ingvar, Ómar Castaldo, Arnór Snær, Daníel Freyr, Arnar Máni, Hafsteinn Óli, Viktor Andri og aðstoðarskólameistari Ásta Laufey. Neðri röð frá vinstri; Valgeir Lunddal, Jóhann Árni, Magnús Gauti, Ellert Kristján, Steindór Máni, Brynjólfur Óli, Jón Albert og Sveinn verkefnisstjóri afreksíþróttasviðs. Á myndina vantar Bergrúnu Ósk Aðalsteinsdóttur.

Svona lítur viðurkenningaskjalið út sem nemendur fengu. Til hamingju aftur öll!

með vor-kveðju!

Sveinn og kennarar á afreksíþróttasviði

Landsliðsstyrkur afhentur í 7. sinn

Landsliðsstyrkur afreksíþróttasviðsins var afhentur í 7. sinn mánudaginn 8. janúar sl. Það var og er alltaf góð stund og í þetta skiptið voru það hvorki fleiri né færri en 19 nöfn sem höfðu tekið þátt í verkefnum landsliða á vegum sérsambands á síðustu önn. Það er glæsilegur árangur og hér gefur að líta yfirlit yfir nemendurna og hvað þau voru að fást við.

Frá 7. afhendingu landsliðsstyrks fyrir haust 2017. Efri röð frá vinstri. Sveinn verkefnisstjóri, Bjarni stofnandi sviðsins, Tumi Steinn, Arnar Máni, Hafsteinn Óli, Daníel Freyr, Arnór Snær, Goði Ingvar, Kolbeinn Tómas, Björgvin Franz, Sigurjón Daði og Ásta Laufey aðstoðarskólameistari. Neðri röð frá vinstri: Brynjólfur Óli, Ragna Sigríður, Bryndís, Jón Albert, Magnús Gauti, Ómar Castaldo, Jóhann Árni. Á myndina vantar Þorleif, Andreu og Bergrúnu Ósk.

Verkefnin sem styrkt voru eru eftirtalin:

Ólympíumót æskunnar þar sem handboltaleikmennirnir Tumi, Arnar, Hafsteinn, Daníel, Björgvin, Þorleifur, Arnór og Goði kepptu fyrir Íslandshönd með U18 ára landsliði Íslands og enduðu í 8. sæti. Þess má geta að þeir kepptu einnig á Sparkassen Cup í Þýskalandi og sigruðu, fyrst íslenskra ka. landsliða til að gera það eftir 20 ára þátttöku í mótinu.

Magnús Gauti borðtennisspilari keppti á sterku móti í Finlandi í byrjun árs og sigraði þar tvær viðreignir sem telst góður árangur.

Norðurlandamótið í sundi skartaði 3 nemendum frá okkur. Bryndís Bolladóttir nældi sér í brons og persónulegar bætingar. Brynjólfur keppti og komst í úrslit í 200m baksundi og var 9.  100m baksundi. Ragna Sigríður keppti svo í 200m skriðsundi þar sem hún hafnaði í 9. sæti.

Andrea Jacobsen lék með A-landsliði Íslands í undankeppni EM í handbolta í tapleikjum gegn sterkum liðum Dana og Tékka.

Jón Albert lék með U18 ára íshokkílandsliði karla á HM 2. deild. Þar endaði liði í 5. sæti.

Ómar, Jóhann og Sigurjón kepptu með U17 ára landsliði Íslands í fótbolta í riðlakeppni EM sem fram fór í Finlandi. Drengirnir stóðu sig vel og komust áfram í milliðriðil.

Frjálsíþróttafólkið okkar lét ekki sitt eftir liggja. Kolbeinn Tómas keppti á Norðurlandamóti Unglinga í fjölþrautum. Þar hafnaði hann í 5. sæti í U18 ára flokki. Bergrún Ósk keppti á HM unglinga í Nottwill í Swiss og hafnaði þar í 1., 4. og 6. sæti í keppni í þrautum.

Við óskum nemendum til hamingju með árangurinn og velfarnaðar á íþrótta og skólaárinu 2018!

Sveinn verkefnisstjóri og þjálfarar

Rannsókn sjúkraþjálfaranema á meiðslum á afreksíþróttasviði

Í vetur starfaði afreksíþróttasviðið með nemendum úr sjúkraþjálfunarskori HÍ undir leiðsögn Árna Árnasonar. Verkefnið var mjög áhugvert, enda hefur ekkert sambærilegt verið gert hér á landi. Hér er að finna ágrip en verkefnið veðrur aðgengilegt á Skemman.is í sumar. Við þökkum stúlkunum fyrir samstarfið og kynninguna á niðurstöðum sem þær héldu fyrir kennara sviðsins nú í vikunni.

Inngangur: Æfingaálag hjá ungu íþróttafólki hefur aukist á síðastliðnum árum. Rannsóknir gefa til kynna að samband sé á milli æfingaálags og meiðslatíðni hjá íþróttafólki. Íþróttameiðsli geta verið stórt vandamál. Þau geta m.a. valdið tímabundinni fjarveru frá íþróttum og jafnvel skóla eða vinnu ásamt því að hafa andleg og félagsleg áhrif. Ekki er mikið til af rannsóknum á íþróttameiðslum barna og unglinga á Íslandi.

Markmið: Kanna meiðslatíðni og æfingaálag hjá ungu íþróttafólki, ásamt því að skoða hvort tengsl séu þar á milli. Skoða hvort munur sé á meiðslatíðni og æfingaálagi á milli kynja annars vegar og íþróttagreina hinsvegar. Kanna hvert hlutfall álagseinkenna og bráðameiðsla er af heildarfjölda íþróttameiðsla.

Aðferðafræði: Tvennskonar spurningalistar voru lagðir fyrir framhaldsskólanemendur á afreksíþróttasviði haustið 2016. Annar þeirra var lagður fyrir nemendur einu sinnu og hinn alls fjórum sinnum yfir 8 vikna tímabil. Gögnum var safnað saman og flutt yfir í Excel og SAS Enterprice Guide 7.1 til úrvinnslu.

Niðurstöður: Marktækt minna æfingaálag og lægra meiðslahlutfall er í fótbolta miðað við handbolta og aðrar íþróttagreinar. Einnig er tíðni álagseinkenna í mjóbaki, hnjám og öðrum líkamshlutum lægri í fótbolta en handbolta á þessum árstíma. Ekki er marktækur munur á æfingaálagi og meiðslatíðni milli kynjanna þrátt fyrir að stúlkurnar hafi í öllum tilvikum haft hærri meiðslatíðni. Auk þess voru stúlkurnar með marktækt fleiri höfuð- og andlitsmeiðsli en drengir ásamt marktækt fleiri meiðsli í neðri útlimum. Álagseinkenni mældust marktækt fleiri en bráðameiðslin, bæði hjá stúlkum og drengjum. Ekki er fylgni milli aukins æfingaálags og hærri meiðslatíðni meðal ungs íþróttafólks.

Ályktanir: Þessi rannsókn var lítil og náði yfir stutt tímabil og það gæti hafa haft áhrif á niðurstöður. Því er þörf á stærri og yfirgripsmeiri rannsókn á þessu sviði hér á landi. Niðurstöður gefa þó innsýn í meiðslatíðni og æfingaálag hjá ungu íþróttafólki í mörgum mismunandi íþróttagreinumi og geta þar með byggt grunn að fyrirbyggjandi aðgerðum.

20 styrkir og aldrei fleiri!

Þann 10. maí fór fram 6. afhending á landsliðsstyrk á afreksíþróttasviðinu. Þeir nemendur sem hafa tekið þátt í landsliðsverkefnum á vegum sérsambands fá 25.000 kr. styrk. Hér er um að ræða nemendur sem keppa fyrir Íslands hönd (ein keppir fyrir BNA) í yngri landsliðum (nokkrir hafa þó keppt fyrir A landslið).

 

Frá 6. afhendingu landsliðsstyrks fyrir vor 2017. Á myndinni eru: Efri röð frá vinstri; Sveinn verkefnisstjóri, Ingi Bogi aðstoðar- og Ársæll skólameistari, Tumi, Arnór, Goði, Vignir, Sara Sif, Arnar Máni, Sara Dögg, Hafsteinn, Sara Margrét, Daníel Freyr og Andrea. Neðri röð, Jón Albert, Sigríður Dröfn, Hjalti, Bryndís og Berglind. Á myndina vantar Elvar Snæ, Maksymilian Jan og Huga Rafn.

Afhendingin var sérlega fjölmenn á þessu vori og hafa aldrei fleiri fengið styrk á einni önn, eða alls 20 nemendur sem hver um sig fékk 25.000 kr. í styrk. Talnaglöggir lesendur sjá að um er að ræða hálfa milljón í styrk! Eftirfarandi nemendur fengu styrk að þessu sinni fyrir verkefni sem tilgreind eru hér að neðan.

  • Sara Dögg Hjaltadóttir og Sara Sif Helgadóttir tóku þátt í undankeppni í Póllandi með U17 ára landsliði kvenna í handbolta.
  • Arnar Máni, Goði Ingvar, Arnór Snær, Tumi Steinn, Daníel Freyr og Hafsteinn Óli tóku allir þátt í verkefni unglingalandsliði karla U17 í Frakklandi í handbolta.
  • Bryndís Bolladóttir sundkona var valin til þátttöku á Smáþjóðaleikunum sem fara fram snemmsumars í San Marínó.
  • Sigríður Dröfn Auðunsdóttir skíðakona keppti í Tyrklandi á Vetrarólympíuhátíð Evrópuæskunnar sem fram fer í Erzurum.
  • Maksymilian Jan, Vignir Freyr Arason, Hugi Rafn Stefánsson og Jón Albert Helgason ferðuðust alla leið til Nýja Sjálands til að keppa í íshokkí með U20 ára landsliði Íslands.
  • Hjalti Jóhannsson og Elvar Snær Ólafsson kepptu fyrir hönd Íslands í Rúmeníu á heimsmeistaramóti í íshokkí.
  • Berlind Benediktsdóttir og Andrea Jacobsen handboltakonur kepptu í undankeppni Evrópumótsins á Spáni í mars.
  • Sara Margrét Brynjarsdóttir tók þátt í verkefni með bandaríska A landsliði kvenna í handbolta í Bandaríkjunum.

Það þarf varla að taka það fram en auðvitað voru þau landi og þjóð til sóma og stóðu sig vel! Óskum þeim áframhaldandi góðs gengis í sumar.

SÞ, verkefninsstjóri

 

Ferðasaga Sveins Jose í Evrópukeppni í handbolta

Serbía

Ferðalagið til Serbíu var langt og strembið. Flugum til Búdepest í Ungverjalandi á miðvikudegi. Vorum komnir það seint að liðið þurfti að gista í Budapest. Daginn eftir hófst rútuferð til Serbíu. Eftir 9 klukkutíma rútuferð vorum við loksins komnir til Zlatibor í Serbíu. Zlatibor er pínu lítið þorp utan Pozega sem er bærinn sem við kepptum í.

Unnum leikinn 27:30 og fórum því heim kátir með 3 marka forskot.

Ferðalagið heim var langt líka, byrjuðum á 3 tíma rútuferð til Belgrade. Þar tókum við flug til Berlín og svo heim til Íslands.

Rúmenía

Eitt enn evrópuævintýrið og aftur haldið á Balkanskagann. Eftir að hafa unnið Rúmenska liðið Turda með 8 mörkum héldum við til Rúmeníu. Flugum snemma að morgni fimmtudags, kvöldinu áður höfðum við komust 2:0 yfir í einvíginu við Fram í úrslitakeppninni, svo lítið var um hvíld.

Flugum við til Luton í Bretlandi, þar þurftum við að bíða í 8 tíma til að taka næsta flug. Notuðum við það og kíktum í miðbæ Luton, sem er úthverfi London.

Eftir skoðunarferð í Luton skelltum við okkur í næstum 4 tíma flug til Cluj Napoca í Rúmeníu. Þá fórum við í hálftíma rútuferð til Turda, þar sem við áttum leik á sunnudegi. Leikurinn fór ekki eins og við vildum, en töpuðum með 9 mörkum.

Fórum við heim með sárt ennið eftir að hafa verið flautaðir úr Evrópukeppninni.

Ferðin heim var svipuð nema var millilent í Birmingham og þaðan beinustu leið til Íslands. En tímabilið er langt frá því að vera búið, og dveljum við ekkert við þessi ósanngjörnu úrslit. Og förum beint að einbeita okkur að 3 leiknum við Fram, þar sem við ætlum okkur í úrslitarimmuna við FH.

Sveinn Jose

Við þökkum Sveini fyrir söguna og óskum honum góðs gengis í úrslitaeinvíginu sem hefst einmitt í kvöld

Verkefnisstjóri,

Afreks býður upp á sveigjanleika!

Nú fyrir skemmstu fór fram rástefna á vegum HSÍ undir nafninu Ný kynslóð – ný tækifæri og ræddu þar landsliðsþjálfararnir Geir Sveinsson og Axel Stefánsson framtíðina og stöðu A-landsliðs karla og kvenna. Þar kom meðal annar fram í máli Axels að leikmönnum þyrfti að vera gefinn kostur á því að taka nám sitt á lengri tíma til að gefa íþróttamönnum tækifæri á að einbeita sér betur að íþrótt sinni.

Fyrir tæpum 3 árum varð stytting náms til stúdentsprófs að veruleika og er í dag 3 ár samkvæmt nýju kerfi. Fullt nám er 200 framhaldsskólaeiningar sem skipt er á 6 annir. Miðað við 35 einingar (og 16-18 vikna önn) er gert er ráð fyrir 40 klst. vinnu nemenda í hverri viku samkvæmt þeirri áætlun. Algengt æfingaálag á hvern nemanda er frá um 8-12 klst. upp fyrir 20 klst. í viku, þó misjafnt eftir tímabili og eftir íþróttagreinum.

Ef við gerum ráð fyrir 15 klst í íþróttir, 40 í námið, 64 í svefn (9 klst fyrir ungt fólk), skiliur það eftir 49 klst á viku sem þurfa að fara í “allt hitt”.

Við vitum vel að álag í framhaldsskóla á nemendur er mikið, og leggst það á þá vinnu sem er unnin í íþróttafélögunum á hverjum tíma. Á hverri önn koma álagspunktar bæði í skóla (t.d. annarlok) og úrslitakeppnir og mót á keppnistímabili. Til að geta mætt því býður afreksíþróttasvið Borgarholtsskóla nemendum sínum að taka námið á lengri tíma með því að fækka þeim einingum sem teknar eru á hverri önn. Það skilar sér í minna álagi á hverri önn og meiri tíma til hvíldar og einbeitingar á íþróttina sem stunduð er. Að taka stúdentspróf á 8 önnum, eða 4 árum lækkar álagið u.þ.b. fjórðung á hverri önn. Gefst þá einnig tækifæri til að bæta við áföngum tengdu því fagi sem nemandinn hyggst sækja á háskólastigi.

Hér má nálgast upptökur frá ráðstefnunni sem var hluti af 60 ára afmælishátíð HSÍ og fór fram í Arion banka við Borgartún. Axel nefnir álag á námsmenn þegar um 52 mínútur eru liðnar af myndskeiðinu.

Bein útsending frá fundi Handknattleikssambands Íslands: Ný kynslóð – ný tækifæri

Posted by Arion banki on 10. mars 2017

Þeir Axel og Geir ræddu framtíðina og hvað þyrfti til, svo landsliðin megi taka næstu skref í sívaxandi alþjóðlegri samkeppni. Virkilega áhugaverð erindi og fróðleg.

Hér má nálgast uppsetningu og lýsingar á náminu á afreksíþróttasviði. http://bhs.is/namid/brautir/afreksithrottasvid/

með kveðju

Sveinn Þorgeirsson (sveinn@bhs.is)

25 handboltanemendur unnu sér sæti í Olís-deildinni með Fjölni

Hvorki fleiri né færri en 25 nemendur (útskrifaðir og núverandi) afreksíþróttasviðsins komu við sögu og spiluðu risastóran þátt í velgengni meistaraflokka Fjölnis í vetur þegar bæði lið unnu sér sæti meðal þeirra bestu. Það er gaman til þess að hugsa að árið 2012 hóf handbolti á afreksíþróttasviði göngu sína með 14 nemendur á skrá. Haustið 2016 voru skráðir 44 nemendur úr 7 félögum af höfuðborgarsvæðinu. Það má því með sanni segja að starfið hafi vaxið og dafnað hratt. Þáttur sviðsins í uppganginum á afreksíþróttasviðinu er mjög áhugaverður og verður spennandi að fylgjast með þessum hópi á næstu árum.

Kvennaliðið tryggði sér 1. sætið með sigri í úrslitaleik gegn KA/Þór á heimavelli um helgina. Leikurinn var jafn og spennandi lengst af og urðu lokatölur 28-26.

Karen Birna nemandi á AÍS átti stórleik gegn KA/Þór í úrslitaleiknum og varði 21 skot. Mynd: Þorgils G.

Hér má sjá tölfræði frá tímabili afrekssviðs nemenda.

NAFN LEIKIR MÖRK GUL 2 MÍN
Berglind Benediktsdóttir 21 58 5 7
Andrea Jacobsen 20 101 4 4
Sara Sif Helgadóttir *markm. 19 2 0 0
Helena Ósk Kristjánsdóttir 18 35 4 1
Andrea Björk Harðardóttir 18 22 1 14
Kristín Lísa Friðriksdóttir 17 15 2 3
Karen Birna Aradóttir *markm. 16 0 0 0
Þórhildur Vala Kjartansdóttir 9 2 2 7
Sara Margrét Brynjarsdóttir 9 1 0 0
Sara Dögg Hjaltadóttir 1 0 0 0
samtals 148 236 18 36

Drengirnir höfðu þegar tryggt sér sæti í efstu deild fyrir sigurleikinn gegn Mílunni með 17 sigurleikjum í röð í byrjun tímabils.

Goði er einn margra yngri landsliðsmanna sem eru á afreksíþróttasviði í handbolta. Mynd: Þorgils G.

Hér má sjá tölfræði frá tímabili afrekssviðs nemenda.

NAFN LEIKIR MÖRK GUL 2 MÍN
Kristján Örn Kristjánsson 22 131 5 17
Arnar Máni Rúnarsson 18 6 2 7
Jón Pálsson *markm 21 0 0 0
Breki Dagsson 21 121 3 12
Brynjar Óli Kristjánsson 21 9 2 2
Björgvin Páll Rúnarsson 20 111 5 3
Bergur Snorrason 18 28 2 9
Bjarki Lárusson 18 30 0 2
Daníel Freyr Rúnarsson 11 7 0 0
Sveinn Þorgeirsson *verkefnisstjóri AÍS 11 6 4 5
Goði Ingvar Sveinsson 6 1 0 1
Egill Árni Jóhannesson 4 0 0 0
Hafsteinn Óli Berg Ramos Rocha 4 0 0 0
Drengur Arnar Kristjánsson 1 0 0 0
Viktor Berg Grétarsson 1 1 0 0
Þorleifur Rafn Aðalsteinsson 1 0 0 0
samtals 198 451 23 58
Starfsmenn
Arnar Gunnarsson *þjálfari AÍS 22 3 1

 

5. afhending – og aldrei fleiri fengið styrk!

Mánudaginn 9. janúar fór fram afhending á landsliðsstyrk afreksíþróttasviðs, og var það í 5. sinn sem nemendum er veittur styrkur fyrir ferðum á vegum landsliða. Fyrir haustönn voru margir sem fengu styrk og hópurinn því sérstaklega stór – sem er frábært. Hver nemandi fékk viðurkenningarskjal og 25.000 kr. styrk greiddann.

5. afhending landsliðsstyrks í Borgarholtsskóla. Frá vinstri, efri röð. Ársæll skólameistari, Arnar Máni, Daníel Freyr, Tumi Steinn, Hafsteinn Óli, Jón Bald, Andrea J., Sveinn verkefnisstjóri. Frá hægri neðri röð; Bryndís B., Berglind B., Sara Margrét, Arnór Snær, Hjalti J., Elvar Snær. Á myndina vantar Goða Ingvar, Theu Imani og Arnar Geir.

Verkefni þeirra sem fengu styrk eru eftirfarandi

Arnór Snær og Tumi Steinn (úr Val), Arnar Máni, Daníel Freyr, Jón Bald, Hafsteinn Óli og Goði Ingvar (úr Fjölni) tóku allir þátt í undanleppni HM í Frakklandi með U17 í handbolta.

Bryndís Bolladóttir sundkona tók þátt í Norðurlandameistaramóti í 25 metra laug.

Andrea Jacobsen og Berglind Benediktsdóttir úr Fjölni kepptu með U19 ára landsliði kvenna í handknattleik á Opna Evrópumeistaramótinu í Svíþjóð.

Hjalti Jóhannsson og Elvar Snær Ólafsson kepptu með U20 í íshokkí á HM í Mexíkó.

Þá keppti Arnar Geir Líndal körfuknattleiksmaður úr Fjölni með U16 ára landsliðinu í körfubolta.

Thea Imani úr Fylki tók þátt í verkefni með A landsliðinu í handknattleik og Sara Margrét  úr Fjölni fór til USA til móts við A-landsliðs Bandaríkjanna í handknattleik.

Óskum þessu flotta afreksfólki til hamingju með árangurinn og einnig að þau haldi áfram að standa sig svona vel.

Sveinn Þorgeirsson