Rafal í skoðun í Englandi

Þessa dagana er hann knattspyrnumarkmaðurinn Rafal Stefán Daníelsson nýnemi á afreksíþróttasviðinu til reynslu í Englandi, m.a. hjá Everton og Liverpool. Rafal hefur stundað námið í fjarnámi fyrstu vikurnar og mun svo koma til landsins í september og hefja staðarnámið hér í Borgarholtsskóla. Við óskum Rafal góðs gengis og hlökkum til að fá hann á æfingar hjá okkur!
Rafal Stefán Daníelsson
Fæddur í Fjarðabyggð árið 2001 og hefur leikið með Fjarðabyggð, Hetti Egilsstöðum og nú síðast FRAM þar sem hann hefur leikið síðan árið 2013, hann er sem stendur í A-liði 3. flokks en hefur æft með bæði 2. flokki og meistaraflokki og spilað einn leik með hvorum flokki. Rafal hefur einnig verið á úrtaksæfingum fyrir yngri landslið Íslands. Hann hefur farið á fjölmörg markvarðarnámskeið, m.a. hjá Siergiej Szypowski sem er þekktur pólskur markvarðarþjálfari en einnig hjá Billy Stewart í Englandi og er Rafal t.d. að fara til hans í sex vikur í ágúst og september og mun æfa og spila með Accrington Stanley. Ásamt þjálfurum Rafal hjá FRAM hefur hann m.a. verið í þjálfun hjá Stefáni Loga Magnússyni markmanni KR.

Rannsókn sjúkraþjálfaranema á meiðslum á afreksíþróttasviði

Í vetur starfaði afreksíþróttasviðið með nemendum úr sjúkraþjálfunarskori HÍ undir leiðsögn Árna Árnasonar. Verkefnið var mjög áhugvert, enda hefur ekkert sambærilegt verið gert hér á landi. Hér er að finna ágrip en verkefnið veðrur aðgengilegt á Skemman.is í sumar. Við þökkum stúlkunum fyrir samstarfið og kynninguna á niðurstöðum sem þær héldu fyrir kennara sviðsins nú í vikunni.

Inngangur: Æfingaálag hjá ungu íþróttafólki hefur aukist á síðastliðnum árum. Rannsóknir gefa til kynna að samband sé á milli æfingaálags og meiðslatíðni hjá íþróttafólki. Íþróttameiðsli geta verið stórt vandamál. Þau geta m.a. valdið tímabundinni fjarveru frá íþróttum og jafnvel skóla eða vinnu ásamt því að hafa andleg og félagsleg áhrif. Ekki er mikið til af rannsóknum á íþróttameiðslum barna og unglinga á Íslandi.

Markmið: Kanna meiðslatíðni og æfingaálag hjá ungu íþróttafólki, ásamt því að skoða hvort tengsl séu þar á milli. Skoða hvort munur sé á meiðslatíðni og æfingaálagi á milli kynja annars vegar og íþróttagreina hinsvegar. Kanna hvert hlutfall álagseinkenna og bráðameiðsla er af heildarfjölda íþróttameiðsla.

Aðferðafræði: Tvennskonar spurningalistar voru lagðir fyrir framhaldsskólanemendur á afreksíþróttasviði haustið 2016. Annar þeirra var lagður fyrir nemendur einu sinnu og hinn alls fjórum sinnum yfir 8 vikna tímabil. Gögnum var safnað saman og flutt yfir í Excel og SAS Enterprice Guide 7.1 til úrvinnslu.

Niðurstöður: Marktækt minna æfingaálag og lægra meiðslahlutfall er í fótbolta miðað við handbolta og aðrar íþróttagreinar. Einnig er tíðni álagseinkenna í mjóbaki, hnjám og öðrum líkamshlutum lægri í fótbolta en handbolta á þessum árstíma. Ekki er marktækur munur á æfingaálagi og meiðslatíðni milli kynjanna þrátt fyrir að stúlkurnar hafi í öllum tilvikum haft hærri meiðslatíðni. Auk þess voru stúlkurnar með marktækt fleiri höfuð- og andlitsmeiðsli en drengir ásamt marktækt fleiri meiðsli í neðri útlimum. Álagseinkenni mældust marktækt fleiri en bráðameiðslin, bæði hjá stúlkum og drengjum. Ekki er fylgni milli aukins æfingaálags og hærri meiðslatíðni meðal ungs íþróttafólks.

Ályktanir: Þessi rannsókn var lítil og náði yfir stutt tímabil og það gæti hafa haft áhrif á niðurstöður. Því er þörf á stærri og yfirgripsmeiri rannsókn á þessu sviði hér á landi. Niðurstöður gefa þó innsýn í meiðslatíðni og æfingaálag hjá ungu íþróttafólki í mörgum mismunandi íþróttagreinumi og geta þar með byggt grunn að fyrirbyggjandi aðgerðum.

Birnir Snær stendur sig vel í Pepsi deildinni

Hann Birnis Snær Fjölnismaður hefur nýlokið 6 önnum á afreksíþróttasviði Borgarholtsskóla og er svo sannarlega að standa sig vel með úrvalsdeildarliði Fjölnis. Hann skoraði meðal annars tvö mörk gegn Þrótti í leik nýverið og var “allt í öllu í sóknarleik” liðsins. Það er virkilega gaman að heyra 🙂 Meðfylgjandi er frétt um frammistöðu liðsins þar sem Birnir er sérstaklega nafngreindur. Mynd af mbl.is

http://433.is/pepsi-deild/einkunnir-ur-leik-throttar-og-fjolnis-birnir-snaer-faer-haestu-einkunn/ 

mynd af mbl.is

Við óskum Birni og félögum hans úr afrekinu áfram góðs gengis í fótboltanum í sumar!

með afrekskveðju

Sveinn Þorgeirsson

Hans í Tromsø IL á reynslu!

Það gerist reglulega að nemendur okkar fara út á reynslu með erlendum félagsliðum. Síðasti afreksíþróttanemandinn sem fór í slíka ferð var Fjölnismaðurinn Hans Viktor Guðmundsson. Hann segir ferðina hafa verið mjög skemmtilega og reynslan að kynnast lífi atvinnumannsins áhugaverð.

allir dagarnir voru svipaðir hjá okkur það var yfirleitt æfing klukkan 11:00 eða 14:00 og það var oft morgunmatur eða hádegismatur fyrir eða eftir æfingu á vellinum með öllu liðinu. Það voru 3 videofundir þar sem andstæðingurinn var greindur og hvernig þeir spiluðu og hvernig þeir pressuðu.

TROMSÖ.jpg
Hér má sjá Hans til vinstri ásamt þjálfara og öðrum leikmanni sem var á reynslu hjá félaginu á sama tíma.

Hann var ekki eini Fjölnismaðurinn á svæðinu því hann dvaldi m.a. hjá Aroni Sigurðssyni sem nýverið skrifaði undir hjá liðinu.

þar spiluðum við eða vorum í playstation eða horfðum á fótboltaleiki og körfuboltaleiki…þannig þetta var mjög skemmtileg ferð og gaman að upplifa hvernig atvinnumennskan er. Það var aðeins meira tempó á æfingum en hérna heima og aðeins meiri gæði sem var mjög skemmtilegt.

Gaman að sjá okkar nemendur fara í svona verkefni! Þess má geta að Hans er stefnir á útskrift frá Borgarholtsskóla í vor.

Gangi þér vel Hans!

með kveðju

Sveinn verkefnisstjóri og þjálfarar AÍS

Nýnemaferð á föstudag

Á föstudag munu nýnemar afreksíþróttasviðs fara í svokallaða samhristingsferð saman. Markmiðið er að hópurinn kynnist og geri eitthvað skemmtilegt saman. Brottför er frá skólanum kl. 8:15 og er áætluð heimkoma kl. 15:00.

Farið verður með rútu að Drumboddsstöðum þar sem nemendur munu klæða sig í flotgalla og fara svo í flúðasiglingu niður Hvítá. Að siglingu lokinni verður boðið upp á ljúffengan grillmat.

Nauðsynlegt er að klæðast hlýjum fötum sem hægt er að vera í innanundir flotgallanum. Einnig er nauðsynlegt að hafa aukaföt því nemendur munu blotna rækilega í flúðasiglingunni. Gufubað og búningsherbergi eru í boði fyrir nemendur eftir ferðina.

Afreksæfingar byrjaðar

Æfingar eru byrjaðar á fullu í knattspyrnu, golfi, handbolta og körfubolta á afreksíþróttasviði Borgarholtsskóla. Við fögnum nýnemunum sem eru 42 að þessu sinni. Hópurinn lítur vel út og passar vel inní prógrammið.

Framundan eru mælingar hjá nýnemum, hlaupagreining og líkamsbeiting. Í framhaldi af því fara nýnemar í forvarnaræfingar hjá Ásmundi Arnarsyni sjúkraþjálfara.