Umsóknir fyrir landsliðsstyrk afreksíþróttasviðs fyrir vor 2020

Sæl öll,

Þá hefur verið opnað fyrir umsóknir í landsliðsstyrk fyrir þessa önn. Tímabilið er frá 1. janúar til ferða sem farnar hafa verið til 22. apríl á þessu ári.  Ég veit að það hafa margar ferðir fallið niður að undanförnu því miður og því eflaust færri umsóknir en ella.

Umsóknarform fyrir styrk (ATH. Aðeins aðgengilegt með @bhs.is tölvupóstfanginu ykkar)

Frá síðustu afhendingu fyrir haust 2019

með bestu kveðju,

Sveinn verkefnisstjóri

Af hverju notum við líkamlegar mælingar?

Einn af meginþáttum námsmats á afreksíþróttasviðinu undanfarin ár hafa verið í formi líkamlegra mælinga. Líkamleg próf eru sjálfsagður þáttur í því að meta ástand íþróttamanns svo hægt sé að greina framfarir, gera áætlanir og læra um þjálfun líkamans. Það er þó alls ekki sama hvernig staðið er að þeim og hér verður farið yfir nokkur þau atriði sem þarf að hafa í huga við framkvæmd líkamlegra prófa.

Ein erfiðasta spurningin þegar kemur að sjálfum prófunum er sú hvaða próf ætti að leggja fyrir. Það sem skiptir mestu máli þar er samhengið, eða íþróttin sem viðkomandi æfir. Það er nefnilega svo að íþróttir, og jafnvel leikstöður eða ólíkar keppnisgreinar innan íþrótta gera mjög mismunandi líkamlegar kröfur á okkur sem íþróttafólk. Hvaða íþrótt við erum að þjálfa í dag er svo samspil þeirra eiginleika sem fá að njóta sín í íþróttinni (íþróttin velur þig), og okkar áhuga.

Prófin þurfa að vera áreiðanleg, þ.e. að segja að mæla sama þáttinn eins, aftur og aftur og réttmæt. Það þýðir að þau þurfa að mæla það sem þau eiga að vera að mæla, og verður réttmætið alltaf metið af því hvaða próf er lagt fyrir hvern. Þolpróf fyrir sundmann verður því að fara fram í lauginni og hjólreiðafólk ætti að fá mælinguna sína á hjóli til að fá sem gagnlegastar niðurstöður svo tvö dæmi séu tekin.

Næst kemur spurningin um hvaða próf veita okkur bestu upplýsingarnar? Þau próf sem eru hvað líkust keppni eru talin sérhæfð og ættu að gefa okkur góðar vísbendingar um hvernig þjálfunin hefur tekist undangengin misseri. Vandinn við slík próf er að þau verða oft ansi flókin og tæknileg í útfærslu því hreyfingar eru í eðli sínu flóknar líkt og þær koma fyrir í íþróttinni sjálfri. Ef ætlunin að mæla oftar en einu sinni (sem ég mæli eindregið með), þá er hagkvæmara (tími, aðstaða, peningar) að velja próf sem eru frekar almenn (ekki keppnislík). Kostir þeirra eru m.a. að þau taka stuttan tíma, viðmið eru aðgengileg, þau eru ódýr, einfalt að gera aftur seinna á sama hátt.

Hér komum við svo að þeim þætti sem oftast klikkar og er einna tímafrekastur. Það er hvað gert er við gögnin eftir að tölum hefur verið safnað. Í okkar tilviki eru tölurnar notaðar til að búa til líkamlega einkunn, og til að upplýsa ykkur um stöðuna ykkar þar sem þið hafið aðgang að þeim til að meta og bera saman við fyrri árangur.

En hvað er góður árangur? Þarf ég að bæta mig í hvert skipti? Hvað er mikil bæting og hvað er lítil? Þessar spurningar eru eðlilegar þegar niðurstöðurnar liggja fyrir. Til að túlka þær og meta þróunina frá einum tímapunkti til annars er að ýmsu að hyggja. Að því gefnu að framkvæmd prófanna sé eins og áreiðanleg milli tveggja tímapunkta eru veigamestu þættirnir til túlkunar eru m.a.;

  • aldur íþróttamanns
  • líkamlegur þroski sérstaklega í kringum kynþroska
  • þjálfunaraldur
  • tímasetning á æfingatímabili
  • fyrri árangur íþróttamanns
  • meiðsli
  • dagsform
  • andlegir þættir á borð við áhuga, skuldbindingu og sjálfstraust
  • endurgjöf og eftirfylgni við niðurstöður prófa

með bestu kveðju

Sveinn Þorgeirsson

Hreyfibingó í boði Afreksíþróttasviðs!

Hér að ofan er bingó-æfing í boði Arnórs Ásgeirssonar í styrkteymi afreksíþróttasviðsins. Hlaðið pdf skjalinu niður, prentið og setjið á ísskápinn t.d. Í skjalinu eru hlekkir á æfingarnar 🙂

LEIÐBEININGAR:

Markmið verkefnisins er að klára allar æfingar á bingóspjaldinu.

Tímaramminn er vikan 23. til 27.mars.    Nemendur hafa frjálsar hendur við framkvæmd æfinganna og geta því skipt þeim í nokkrar lotur. Það væri t.d. hægt að skipta “300 snerta gagnstæða öxl” í 10 lotur x 30 endurtekningar eða Tabata þar sem unnið er í 20 sek og hvílt í 10 sek, alveg þar til að öllum 300 endurtekningum er lokið.   Við mælum með að velja 4-5 æfingar til að gera á einum degi.

Gangi ykkur vel og góða helgi!

SÞ og Arnór Ásgeirsson

Boost og fræðsla

Boðið verður upp á næringarfyrirlestur og boost vinnusmiðju eftir skóla þann 11. mars nk. Viðburðurinn er í boði afreksíþróttasviðs og er hugsaður fyrir ungt afreksíþróttafólk og forráðamenn þeirra. Á þessu kvöldi fá viðstaddir að smakka boost, fá ráð um framreiðslu slíks og upplýsingar um næringu. Auk þess fá þau að hafa áhrif á vöruúrvalið í mötuneytinu þar sem til stendur að fara að bjóða upp á boost og safa.

Viðburðurinn fer fram í Borgarholtsskóla og hefst fyrri fyrirlesturinn kl. 17:30 og sá síðari kl. 19:30. Fólk getur valið milli erinda eftir því hvor tímasetningin hentar, þar sem sama dagskrá er á báðum tímum.

Örfá orð um fyrirlesarann.
Birna Varðardóttir er með BS gráðu í næringarfræði frá Háskóla Íslands og MS gráðu í þjálffræðivísindum/íþróttanæringarfræði frá Maastricht háskóla í Hollandi. Sjálf hefur Birna mikla reynslu úr íþróttum, bæði sem íþróttakona og þjálfari. Jafnframt hefur hún starfað sem rannsóknarnemi og kennari við HÍ og komið að innlendum og erlendum rannsóknar- og fræðsluverkefnum.

Vinnsla á boostinu er svo í höndum Atla og Páls frá Matfangi. Matfang sér um mötuneyti skólans og hefur gert það frá því í haust. Matfang er tilbúið að fara í aukið samstarf við skólann og nemendur um það framboð af fæðu sem verður í mötuneytinu. Það tel ég að séu flottar fréttir fyrir ungt íþróttafólk sem vill hafa næringarumhverfi sitt sem best.

með bestu kveðju
Sveinn verkefnisstjóri,
Birna og Matfang umsjónarmenn mötuneytisins.