Kynningaræfing á afrekinu fyrir 9. og 10. bekk

Nemendum í 9. og 10. bekk er boðið á sérstaka kynningaræfingu á afrekinu. Æfingin verður í formi hraðaþjálfunar og viðbragðs í bland við sálfræðilega ráðgjöf. Til að taka þátt í æfingunni þarf að mæta stundvíslega í íþróttafatnaði og innanhússskóm.

Þarna gefst nemendum einnig tækifæri á að kynnast sviðinu og spyrja verkefnisstjóra og kennara um fyrirkomulagið.

Æfingin fer fram í Fjölnishöll, fjölnotaíþróttasal Egilshallar. Gengið er inn um aðalinngang, framhjá fimleikum og inn eftir ganginum að stóra salnum.

Hlökkum til að sjá ykkur á mánudaginn!

Með umsjón æfingarinnar fara Sveinn Þorgeirsson og Hreiðar Haraldsson

Góðar umræður um afreksíþróttastarf í framhaldskólum

Eftir dagskrá morgunsins á miðvikudeginum “Svefn, æfing og næring” tóku kennarar og nokkrir nemendur sviðsins þátt í umræðum um hvernig staðið er að afreksíþróttasviðum – hvað sé hægt að læra af starfinu í Danmörku og hvað við getum bætt hér heima.

Þetta var algjörlega frábært að fá góða gesti víðsvegar að. Margar áhugaverðar hugmyndir komu fram og munu þessar umræður eflaust hafa a.m.k. örlítil áhrif á það hvernig við störfum í framtíðinni.

Sérstakar þakkir fá Þórarinn Alvar Þórarinsson fyrir aðstoð við uppsetningu þessum viðburði og Danirnir Christian og Laurits fyrir kynninguna á starfinu í Skanderborg (SHEA).

Enn styrkist aðstaðan fyrir nemendur

Þann 8. ágúst nk. verður fjölnotaíþróttahús við Egilshöllina afhent til notkunar fyrir Fjölni, Borgarholtsskóla og aðra leigjendur. Þetta er okkur gríðarlega mikið fagnaðarefni enda verður góð aðstaða okkar enn betri með aðgengi að þessari frábæru aðstöðu.

Þessi salur hefur lengið verið í umræðunni, en eftir að ákvörðun var tekin og vinnuvélar mættu á svæðið gerðust hlutirnir hratt. Framkvæmdin hefur tekið tæpt ár frá því þær hófst, seint síðasta haust í fyrra.

Mynd frá framkvæmdum í sumar. Hér átti m.a. eftir að parketleggja og setja inn mörk og körfur.

Í vetur koma nemendur í handbolta og körfubolta til með að æfa í fjölnotasalnum ásamt mögulega fleiri greinum í framtíðinni. Þessar greinar bætast því í hóp fótbolta, styrkþjálfunar, frálsíþrótta, borðtennis, keilu og íshokkí sem áður hafa verið kenndar í Egilshöllinni. Í dag er það því aðeins golfíþróttin sem sækir aðstöðu utan veggja hallarinnar, en þó hefur golfið verið á grasinu öðru hverju undanfarin misseri.

Það er því óhætt að segja að tilhlökkunin fyrir nýja salnum og starfi vetrarins sé farin að byggjast upp hjá þjálfurum og vonandi nemendum sviðsins líka.

Með bestu kveðju,

Verkefnisstjóri SÞ