Uppfærð stefna afreksíþróttasviðs

Á afreksíþróttasviði er boðið upp nám sem er sérstaklega sniðið fyrir nemendur framhaldsskóla sem vilja stunda íþrótt sína af krafti samhliða og þannig flétta saman nám og áhugamál. Boðið er upp á 30 námseiningar í 6 áföngum sem þreyttar eru samhliða öðru námi til stúdentsprófs í Borgarholtsskóla (ath. einnig iðngreinar). Nemendur af bóknámsbrautum til stúdentsprófs útskrifast með kjörsviðsval af afreksíþróttasviði.

Námið á afreksíþróttasviði er í senn krefjandi og hagnýtt. Áfangarnir blanda saman líkamlegri, félagslegri og hugarfarsþjálfun með það að markmiði að gagnast íþróttamanninum sjálfum í leik og starfi þá og þegar, sem síðar. Á sviðinu er boðið upp á fyrsta flokks þjálfun, ráðgjöf og faglegan stuðning fyrir íþróttafólk sem leitast við að sinna námi samhliða af kostgæfni.

Markmið afreksíþróttasviðsins er gera nemendur líkamlega, félagslega og hugarfarslega tilbúna í að takast á við álag sem fylgir því að stefna að vera í fremstu röð í sinni íþrótt. Námið er kjörinn undirbúningur fyrir frekara nám á háskólastigi með möguleikum á að bæta við sig eftir þörfum og nýta þar með sveigjanleika framhaldsskólakerfisins til fulls. Afreksíþróttasviðið er í samstarfi við erlenda skóla um heimsóknir nemenda og þátttakandi í erlendum rannsóknarverkefnum á sviði samþættingar náms og íþrótta (dual career).

15. september 2021

SÞ, verkefnisstjóri