Tilboð í næringar-nóvember

Á þessum viðburði verður farið yfir sérstakt næringartilboð til nemenda. Nemendum og foreldrum gefst færi á að kaupa 20x skipta kort á kostakjörum. Farið verður yfir matseðla og góð ráð gefin. Hressing í boði.

Hlökkum til að sjá ykkur!

Nýnemaferð sem lukkaðist ljómandi vel

Líkt og undanfarin ár, nema í fyrra, var farið með nýnema í ferð í upphafi annar. Ferðinni var heitið í Hveragerði þar sem Andrés og Úlli í Iceland Activities tóku vel á móti okkur í hjóla- og hópeflisferð. Við þökkum kærlega fyrir okkur og þessar myndir tala fyrir sig 🙂

Uppfærð stefna afreksíþróttasviðs

Á afreksíþróttasviði er boðið upp nám sem er sérstaklega sniðið fyrir nemendur framhaldsskóla sem vilja stunda íþrótt sína af krafti samhliða og þannig flétta saman nám og áhugamál. Boðið er upp á 30 námseiningar í 6 áföngum sem þreyttar eru samhliða öðru námi til stúdentsprófs í Borgarholtsskóla (ath. einnig iðngreinar). Nemendur af bóknámsbrautum til stúdentsprófs útskrifast með kjörsviðsval af afreksíþróttasviði.

Námið á afreksíþróttasviði er í senn krefjandi og hagnýtt. Áfangarnir blanda saman líkamlegri, félagslegri og hugarfarsþjálfun með það að markmiði að gagnast íþróttamanninum sjálfum í leik og starfi þá og þegar, sem síðar. Á sviðinu er boðið upp á fyrsta flokks þjálfun, ráðgjöf og faglegan stuðning fyrir íþróttafólk sem leitast við að sinna námi samhliða af kostgæfni.

Markmið afreksíþróttasviðsins er gera nemendur líkamlega, félagslega og hugarfarslega tilbúna í að takast á við álag sem fylgir því að stefna að vera í fremstu röð í sinni íþrótt. Námið er kjörinn undirbúningur fyrir frekara nám á háskólastigi með möguleikum á að bæta við sig eftir þörfum og nýta þar með sveigjanleika framhaldsskólakerfisins til fulls. Afreksíþróttasviðið er í samstarfi við erlenda skóla um heimsóknir nemenda og þátttakandi í erlendum rannsóknarverkefnum á sviði samþættingar náms og íþrótta (dual career).

15. september 2021

SÞ, verkefnisstjóri

3ja árið fór í hella- og baðferð á Hengilssvæðinu

Við erum loksins að ná að keyra í gegn þær áherslur sem áttu að byrja síðasta vetur. Í þeim fólst meðal annars að fara með eldri hópa í ferðir út á land. Þessi hópur hafði áður farið í fjallahjólanýnemaferð en nú var komið að einhverju öðru. Fyrir valinu þetta árið var að fara á Hengilssvæðið í hella- og baðferð.

Nú er það bara 1. árið sem á eftir að fara í nýnemaferð en hún verður farin 9. september nk. Kærar þakkir fyrir ferðina, þið voruð okkur til mikils sóma sem fyrr 🙂

2. árið fór í flotta fjallahjólaferð!

Nú loksins komumst við í hópferð með nemendur okkar á sem innrituðust í fyrra. Þetta hefur verið löng bið en við teljum að ferðin hafi verið afar vel heppnuð og markmiðum náð, – þ.e. að kynnast betur og skemmta sér saman.

Hér má sjá nokkrar myndir frá ferðinni sem var unnin í samstarfi við Iceland Activities. Nemendur fengu fjallahjól og nesti og hjóluðu um Reykjadalinn. Auk þess var farið í nokkra skemmtilega hópeflisleiki.

Framundan er svo ferð á Hengilssvæðið í bað- og hellaferð með 3ja árinu á morgun.

Myndir frá 31. ágúst, fjallahjólaferð 2. ársins.

Uppfærðar skólareglur

Vil viljum vekja athygli á að í vor voru reglur um afreksíþróttasviðið uppfærðar og standa nú svona í skólareglum Borgarholtsskóla.

Sérákvæði vegna afrekssviðs

Gerð er ríkari krafa um mætingu, ástundun og framvindu nemenda á afrekssviði. Nemandi fyrirgerir rétti sínum til náms á afrekssviði  við eftirfarandi:

  • Nemandi fer undir 85% mætingarhlutfall á önn.
  • Nemandi nær ekki lágmarkseinkunn 5 í afreksíþróttasviðsáfanga.
  • Nemandi nær ekki lágmarkseinkunn 5 í tveimur eða fleiri af þeim áföngum sem viðkomandi var skráður í við upphaf annar. Úrsögn jafngildir falli.
  • Nemandi gerist uppvís að broti á lífstílssamningi afrekssviðs sem hann skrifaði      undir í upphafi námstíma.

Nemandi sem fyrirgerir rétti sínum til náms á afrekssviði getur þó haldið áfram námi á þeirri braut sem hann er skráður á standist hann skólareglur að öðru leyti.

Frekari upplýsingar veitir verkefnisstjóri

Sveinn Þorgeirsson í sveinn.thorgeirsson@borgo.is

Glæsileg útskrift

Það var að vanda glæsilegur hópur sem útskrifaðist frá okkur og í vor eru það 23 nemendur sem luku námi. Hér er myndaveisla frá viðburðinum sem var streymt á netinu.

Afreksdagurinn 12. maí

Við héldum Afreksdag í síðustu viku. Um var að ræða lokahnykkinn á starfið okkar og síðasta tíma með nemendum þessa önnina. Nemendum var boðið upp á ólíka dagskrá eftir áföngum þar sem áherslan var að hafa gaman saman. Dagurinn fór fram í lotu með félagslegri áherslu og var það því tilvalið að hafa þetta einfalt, hittast og eiga góða stund.

Fyrsta árinu var boðið í Egilshöllina þar sem þau gátu valið um liðkunar- og styrkæfingar í heitum sal með Ölmu sjúkraþjálfara, fara á skauta eða fara í hjólaferð. Að lokum komu allir nemendur saman yfir samlokum og djúsum.

Annað árið fékk val um að fara í golfþrautir í Golfklúbbi Mosfellsbæjar í frábærri aðstöðu eða að fara í sund í Grafarvogslaug. Að því loknu var boðið upp á létta hressingu með söfum og samlokum.

2. árið okkar með samlokur og djúsa eftir sundsprett.

Þriðja árið fékk svo að fara í heimsókn í Háskólann í Reykjavík þar sem þau fengu fyrirlestur frá Írisi Mist kennara okkar um hugarfar afreksíþróttafólks og tengdi þar marga áhugaverða þætti saman. HR og Borgarholtsskóli eru í formlegu samstarfi um ýmsa þætti og hluti af því er að nemendur fái að koma í heimsókn í skólann og fengu sérstaka kynningu námi íþróttafræðinnar ásamt því að skoða sig um. Að því loknu var boðið upp á heitan hádegismat og í boði var að fara á Ylströndina í Nauthólsvík.

3. árið okkar í heimsókn í HR.

Heil yfir gekk dagurinn ákaflega vel og gaman að geta endað sérkennilega önn á þennan hátt.

Við eigum von á að geta farið í stærri og umfangsmeiri ferðir með hópanna okkar næsta haust með áframhaldandi árangri í sóttvörnum og bólusetningum.

Til 1. og 2. árs – hlökkum til að sjá ykkur eftir sumarið!

Til 3. árs – við munum sakna ykkar! Sjáumst á útskrift ykkar, núna í vor, næsta haust eða síðar. Gangi ykkur vel!