Vildum minna ykkur á síðuna okkar á instagram sem þið finnið undir @afreksvid

Afreksíþróttasvið Borgarholtsskóla
#afreks #AFR
Vildum minna ykkur á síðuna okkar á instagram sem þið finnið undir @afreksvid
Nemendur hafa fengið póstsendingu með samningi afreksíþróttasviðsins og skila inn undirrituðum samningum í vikunni. Hér er hægt að sjá samninginn.
Samningur_afrekssvid_haust_2018_final
með bestu kveðju
SÞ verkefnisstjóri
Þann 8. ágúst nk. verður fjölnotaíþróttahús við Egilshöllina afhent til notkunar fyrir Fjölni, Borgarholtsskóla og aðra leigjendur. Þetta er okkur gríðarlega mikið fagnaðarefni enda verður góð aðstaða okkar enn betri með aðgengi að þessari frábæru aðstöðu.
Þessi salur hefur lengið verið í umræðunni, en eftir að ákvörðun var tekin og vinnuvélar mættu á svæðið gerðust hlutirnir hratt. Framkvæmdin hefur tekið tæpt ár frá því þær hófst, seint síðasta haust í fyrra.
Í vetur koma nemendur í handbolta og körfubolta til með að æfa í fjölnotasalnum ásamt mögulega fleiri greinum í framtíðinni. Þessar greinar bætast því í hóp fótbolta, styrkþjálfunar, frálsíþrótta, borðtennis, keilu og íshokkí sem áður hafa verið kenndar í Egilshöllinni. Í dag er það því aðeins golfíþróttin sem sækir aðstöðu utan veggja hallarinnar, en þó hefur golfið verið á grasinu öðru hverju undanfarin misseri.
Það er því óhætt að segja að tilhlökkunin fyrir nýja salnum og starfi vetrarins sé farin að byggjast upp hjá þjálfurum og vonandi nemendum sviðsins líka.
Með bestu kveðju,
Verkefnisstjóri SÞ
Í vetur starfaði afreksíþróttasviðið með nemendum úr sjúkraþjálfunarskori HÍ undir leiðsögn Árna Árnasonar. Verkefnið var mjög áhugvert, enda hefur ekkert sambærilegt verið gert hér á landi. Hér er að finna ágrip en verkefnið veðrur aðgengilegt á Skemman.is í sumar. Við þökkum stúlkunum fyrir samstarfið og kynninguna á niðurstöðum sem þær héldu fyrir kennara sviðsins nú í vikunni.
Inngangur: Æfingaálag hjá ungu íþróttafólki hefur aukist á síðastliðnum árum. Rannsóknir gefa til kynna að samband sé á milli æfingaálags og meiðslatíðni hjá íþróttafólki. Íþróttameiðsli geta verið stórt vandamál. Þau geta m.a. valdið tímabundinni fjarveru frá íþróttum og jafnvel skóla eða vinnu ásamt því að hafa andleg og félagsleg áhrif. Ekki er mikið til af rannsóknum á íþróttameiðslum barna og unglinga á Íslandi.
Markmið: Kanna meiðslatíðni og æfingaálag hjá ungu íþróttafólki, ásamt því að skoða hvort tengsl séu þar á milli. Skoða hvort munur sé á meiðslatíðni og æfingaálagi á milli kynja annars vegar og íþróttagreina hinsvegar. Kanna hvert hlutfall álagseinkenna og bráðameiðsla er af heildarfjölda íþróttameiðsla.
Aðferðafræði: Tvennskonar spurningalistar voru lagðir fyrir framhaldsskólanemendur á afreksíþróttasviði haustið 2016. Annar þeirra var lagður fyrir nemendur einu sinnu og hinn alls fjórum sinnum yfir 8 vikna tímabil. Gögnum var safnað saman og flutt yfir í Excel og SAS Enterprice Guide 7.1 til úrvinnslu.
Niðurstöður: Marktækt minna æfingaálag og lægra meiðslahlutfall er í fótbolta miðað við handbolta og aðrar íþróttagreinar. Einnig er tíðni álagseinkenna í mjóbaki, hnjám og öðrum líkamshlutum lægri í fótbolta en handbolta á þessum árstíma. Ekki er marktækur munur á æfingaálagi og meiðslatíðni milli kynjanna þrátt fyrir að stúlkurnar hafi í öllum tilvikum haft hærri meiðslatíðni. Auk þess voru stúlkurnar með marktækt fleiri höfuð- og andlitsmeiðsli en drengir ásamt marktækt fleiri meiðsli í neðri útlimum. Álagseinkenni mældust marktækt fleiri en bráðameiðslin, bæði hjá stúlkum og drengjum. Ekki er fylgni milli aukins æfingaálags og hærri meiðslatíðni meðal ungs íþróttafólks.
Ályktanir: Þessi rannsókn var lítil og náði yfir stutt tímabil og það gæti hafa haft áhrif á niðurstöður. Því er þörf á stærri og yfirgripsmeiri rannsókn á þessu sviði hér á landi. Niðurstöður gefa þó innsýn í meiðslatíðni og æfingaálag hjá ungu íþróttafólki í mörgum mismunandi íþróttagreinumi og geta þar með byggt grunn að fyrirbyggjandi aðgerðum.
Mánudaginn 9. janúar fór fram afhending á landsliðsstyrk afreksíþróttasviðs, og var það í 5. sinn sem nemendum er veittur styrkur fyrir ferðum á vegum landsliða. Fyrir haustönn voru margir sem fengu styrk og hópurinn því sérstaklega stór – sem er frábært. Hver nemandi fékk viðurkenningarskjal og 25.000 kr. styrk greiddann.
Verkefni þeirra sem fengu styrk eru eftirfarandi
Arnór Snær og Tumi Steinn (úr Val), Arnar Máni, Daníel Freyr, Jón Bald, Hafsteinn Óli og Goði Ingvar (úr Fjölni) tóku allir þátt í undanleppni HM í Frakklandi með U17 í handbolta.
Bryndís Bolladóttir sundkona tók þátt í Norðurlandameistaramóti í 25 metra laug.
Andrea Jacobsen og Berglind Benediktsdóttir úr Fjölni kepptu með U19 ára landsliði kvenna í handknattleik á Opna Evrópumeistaramótinu í Svíþjóð.
Hjalti Jóhannsson og Elvar Snær Ólafsson kepptu með U20 í íshokkí á HM í Mexíkó.
Þá keppti Arnar Geir Líndal körfuknattleiksmaður úr Fjölni með U16 ára landsliðinu í körfubolta.
Thea Imani úr Fylki tók þátt í verkefni með A landsliðinu í handknattleik og Sara Margrét úr Fjölni fór til USA til móts við A-landsliðs Bandaríkjanna í handknattleik.
Óskum þessu flotta afreksfólki til hamingju með árangurinn og einnig að þau haldi áfram að standa sig svona vel.
Sveinn Þorgeirsson
Það má segja að árið 2017 byrji með stæl! Í dag var skrifað undir samninga milli Borgarholtsskóla og Fjölnis um starfsemi afreksíþróttasviðsins og aukið samstarf aðilanna tveggja. Ennfremur var undirritaður samningur við Reginn og Reykjavíkurborg um byggingu íþróttahúss með tveimur löglegum handboltavöllum á.
Það þarf ekki að fjölyrða um hve mikil bylting þetta er fyrir boltagreinar í Grafarvoginum. Við höfum lengi búið við aðstöðuleysi og sótt aðstöðu í nágrannasveitarfélög. Nú mun hinsvegar rísa frábært hús á góðum stað þar sem sviðið fær að blómstra.
Hlökkum til framtíðarinnar og til hamingju nemendur á afreksíþróttasviði og verðandi nemendur!
Sveinn Þorgeirsson, verkefnisstjóri
Þó skólinn sé í sumarfríi eru leikmenn það svo sannarlega ekki. Knattspyrnan rúllar og aðrar greinar æfa af krafti fyrir undirbúning næsta vetrar. Svo eru sumir sem eru valdir í landslið og keppa á þessum tíma. Einn þeirra er Árni Elmar, körfuboltadrengur úr Fjölni. Hann ásamt liðsfélögum sínum í U18 ára landsliðinu gerðu sér lítið fyrir og urðu Norðurlandameistara fyrir skemmstu. Við óskum Árna og liðsfélögum innilega til hamingju með þennan árangur!
með bestu kveðju
Sveinn Þorgeirsson
Á dögunum fengum við frábæran gest á afreksíþróttasviðið í Borgó. Þar var mættur Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari meistaraflokks KR í körfubolta og aðstoðarlandsliðsþjálfari A liðs karla.
Nemendur fengu góða leiðsögn og fóru í gegnum mikilvæg atriði í tækniatriðum körfuknattleiks. Við þökkum Finni fyrir heimsóknina og vonandi fáum við hann aftur í heimsókn síðar.
Á föstudag munu nýnemar afreksíþróttasviðs fara í svokallaða samhristingsferð saman. Markmiðið er að hópurinn kynnist og geri eitthvað skemmtilegt saman. Brottför er frá skólanum kl. 8:15 og er áætluð heimkoma kl. 15:00.
Farið verður með rútu að Drumboddsstöðum þar sem nemendur munu klæða sig í flotgalla og fara svo í flúðasiglingu niður Hvítá. Að siglingu lokinni verður boðið upp á ljúffengan grillmat.
Nauðsynlegt er að klæðast hlýjum fötum sem hægt er að vera í innanundir flotgallanum. Einnig er nauðsynlegt að hafa aukaföt því nemendur munu blotna rækilega í flúðasiglingunni. Gufubað og búningsherbergi eru í boði fyrir nemendur eftir ferðina.
Æfingar eru byrjaðar á fullu í knattspyrnu, golfi, handbolta og körfubolta á afreksíþróttasviði Borgarholtsskóla. Við fögnum nýnemunum sem eru 42 að þessu sinni. Hópurinn lítur vel út og passar vel inní prógrammið.
Framundan eru mælingar hjá nýnemum, hlaupagreining og líkamsbeiting. Í framhaldi af því fara nýnemar í forvarnaræfingar hjá Ásmundi Arnarsyni sjúkraþjálfara.