Hvaða þjónustu fá nemendur á líkamlegum æfingum á afreksíþróttasviðinu?

pisitll eftir Valgerði Tryggvadóttur sjúkraþjálfara og Svein Þorgeirsson verkefnisstjóra

Valgerður er sjúkraþjálfari hjá Styrk ehf. og á afreksíþróttasviði Borgarholtsskóla.

Styrkteymi Afreksíþróttasviðs Borgarholtsskóla samanstendur af reyndum íþróttafræðingum og sjúkraþjálfara. Unnið er markvisst að því að kynna fyrir nemendum mismunandi þjálfunaráherslur til að hámarka árangur sinn í íþróttum. Það er lögð rík áhersla á að þau þekki líkama sinn og læri inn á sín mörk hvað þjálfunarálag varðar til að vinna gegn álagsmeiðslum. Þjálfarar mæta þeim því þar sem þau eru stödd í sinni íþrótt með tilliti til íþróttar og aðstoða við að stýra álaginu og æfa framhjá meiðslum.

Í þjálfuninni er farið yfir mikilvægi góðs grunnþols og þreyta nemendur þolpróf í upphafi annar.  Ef þörf er á fá nemendur leiðbeiningar varðandi hvernig má bæta þolið. Þolþjálfun bætir frammistöðu íþróttamannsins og hefur einnig forvarnargildi gagnvart meiðslum. Gott grunnþol flýtir fyrir endurheimt og gerir okkur kleift að klára æfingar og keppnir með góðri tækni og líkamsbeitingu. Það gerir það að verkum að við höfum úr fleiri hreyfingum að velja til að bregðast við mismunandi áreiti í keppni og drögum því úr endurteknu álagi á ákveðin svæði. Einnig bætir gott þol svefn og getur haft jákvæð áhrif á andlega líðan og einbeitingu til náms og keppni.

Algeng ástæða meiðsla við keppni er þegar leikmenn þurfa að stoppa hreyfingu sína skyndilega og því er farið vel yfir bremsuþátt hreyfinga í þjálfun okkar hjá afrekinu. Aðrir þættir sem lögð er rík áhersla á eru snerpa og viðbragð, tækni við almennar styrkjandi æfingar, hlaup og hopp. Stuðst m.a. við viðurkennt stökkprógramm sem heitir Sportsmetrics og sérstaklega hannað til að draga úr meiðslum og kenna uppstökks og lendingartækni í stigvaxandi útfærslum.

Þegar meiðsli gera vart við sig er nauðsynlegt að draga tímabundið úr álagi á meiðslasvæðinu. Það er mjög mikilvægt að draga ekki úr almennu æfingaálagi samhliða því. Ef það er dregið úr almennu æfingaálagi við meiðsli er hætta á að íþróttamaðurinn sé ekki í standi til að hefja æfingar og keppni af krafti aftur þegar búið er að vinna með meiðslin sjálf og hann verður því útsettari fyrir endurteknum meiðslum. Í meiðslum þarf íþróttamaðurinn því að taka ábyrgð á þjálfun sinni og vera hugmyndaríkur við að finna æfingar sem gera honum mögulegt að æfa af fullum krafti án þess að setja álag á meiðslasvæðið. Sjúkraþjálfari er til staðar á öllum æfingum afreksíþróttasviðsins til að ráðleggja nemendum varðandi meiðsli og æfingar.

Auk eftirlits sjúkraþjálfara með æfingum gefst nemendum kostur á einstaklingstíma í sjúkraþjálfun, utan skólatíma og án biðtíma, hjá Styrk sjúkraþjálfunarstofu á Höfðabakka 9. Best er að panta tíma í gegnum netfangið valgerdur@styrkurehf.is.

Rannsókn sjúkraþjálfaranema á meiðslum á afreksíþróttasviði

Í vetur starfaði afreksíþróttasviðið með nemendum úr sjúkraþjálfunarskori HÍ undir leiðsögn Árna Árnasonar. Verkefnið var mjög áhugvert, enda hefur ekkert sambærilegt verið gert hér á landi. Hér er að finna ágrip en verkefnið veðrur aðgengilegt á Skemman.is í sumar. Við þökkum stúlkunum fyrir samstarfið og kynninguna á niðurstöðum sem þær héldu fyrir kennara sviðsins nú í vikunni.

Inngangur: Æfingaálag hjá ungu íþróttafólki hefur aukist á síðastliðnum árum. Rannsóknir gefa til kynna að samband sé á milli æfingaálags og meiðslatíðni hjá íþróttafólki. Íþróttameiðsli geta verið stórt vandamál. Þau geta m.a. valdið tímabundinni fjarveru frá íþróttum og jafnvel skóla eða vinnu ásamt því að hafa andleg og félagsleg áhrif. Ekki er mikið til af rannsóknum á íþróttameiðslum barna og unglinga á Íslandi.

Markmið: Kanna meiðslatíðni og æfingaálag hjá ungu íþróttafólki, ásamt því að skoða hvort tengsl séu þar á milli. Skoða hvort munur sé á meiðslatíðni og æfingaálagi á milli kynja annars vegar og íþróttagreina hinsvegar. Kanna hvert hlutfall álagseinkenna og bráðameiðsla er af heildarfjölda íþróttameiðsla.

Aðferðafræði: Tvennskonar spurningalistar voru lagðir fyrir framhaldsskólanemendur á afreksíþróttasviði haustið 2016. Annar þeirra var lagður fyrir nemendur einu sinnu og hinn alls fjórum sinnum yfir 8 vikna tímabil. Gögnum var safnað saman og flutt yfir í Excel og SAS Enterprice Guide 7.1 til úrvinnslu.

Niðurstöður: Marktækt minna æfingaálag og lægra meiðslahlutfall er í fótbolta miðað við handbolta og aðrar íþróttagreinar. Einnig er tíðni álagseinkenna í mjóbaki, hnjám og öðrum líkamshlutum lægri í fótbolta en handbolta á þessum árstíma. Ekki er marktækur munur á æfingaálagi og meiðslatíðni milli kynjanna þrátt fyrir að stúlkurnar hafi í öllum tilvikum haft hærri meiðslatíðni. Auk þess voru stúlkurnar með marktækt fleiri höfuð- og andlitsmeiðsli en drengir ásamt marktækt fleiri meiðsli í neðri útlimum. Álagseinkenni mældust marktækt fleiri en bráðameiðslin, bæði hjá stúlkum og drengjum. Ekki er fylgni milli aukins æfingaálags og hærri meiðslatíðni meðal ungs íþróttafólks.

Ályktanir: Þessi rannsókn var lítil og náði yfir stutt tímabil og það gæti hafa haft áhrif á niðurstöður. Því er þörf á stærri og yfirgripsmeiri rannsókn á þessu sviði hér á landi. Niðurstöður gefa þó innsýn í meiðslatíðni og æfingaálag hjá ungu íþróttafólki í mörgum mismunandi íþróttagreinumi og geta þar með byggt grunn að fyrirbyggjandi aðgerðum.