12 afhending landsliðsstyrks fyrir vorið 2020

Líkt og annað í starfi afreksíþróttasviðsins á síðari hluta þessarar annar var afhending landsliðsstyrks fyrir önnina ólík því sem áður hefur verið. Afhendingin var rafræn í þetta skiptið og á myndinni má sjá hver það voru sem hlutu styrk. Það þarf ekki að koma á óvart að styrkirnir eru færri en oft áður vegna fjölda utanlandsferða sem var aflýst nú í vor.

Frá rafrænni afhendingu landsliðsstyrks fyrir vorið 2020 (12. skiptið). Frá vinstri, Elín (íshokkí), Brynjólfur og Ragna (sund), Valdís (blak) og Þórður (karate).

Til hamingju öll og gleðilegt sumar!

Umsóknir fyrir landsliðsstyrk afreksíþróttasviðs fyrir vor 2020

Sæl öll,

Þá hefur verið opnað fyrir umsóknir í landsliðsstyrk fyrir þessa önn. Tímabilið er frá 1. janúar til ferða sem farnar hafa verið til 22. apríl á þessu ári.  Ég veit að það hafa margar ferðir fallið niður að undanförnu því miður og því eflaust færri umsóknir en ella.

Umsóknarform fyrir styrk (ATH. Aðeins aðgengilegt með @bhs.is tölvupóstfanginu ykkar)

Frá síðustu afhendingu fyrir haust 2019

með bestu kveðju,

Sveinn verkefnisstjóri

Af hverju notum við líkamlegar mælingar?

Einn af meginþáttum námsmats á afreksíþróttasviðinu undanfarin ár hafa verið í formi líkamlegra mælinga. Líkamleg próf eru sjálfsagður þáttur í því að meta ástand íþróttamanns svo hægt sé að greina framfarir, gera áætlanir og læra um þjálfun líkamans. Það er þó alls ekki sama hvernig staðið er að þeim og hér verður farið yfir nokkur þau atriði sem þarf að hafa í huga við framkvæmd líkamlegra prófa.

Ein erfiðasta spurningin þegar kemur að sjálfum prófunum er sú hvaða próf ætti að leggja fyrir. Það sem skiptir mestu máli þar er samhengið, eða íþróttin sem viðkomandi æfir. Það er nefnilega svo að íþróttir, og jafnvel leikstöður eða ólíkar keppnisgreinar innan íþrótta gera mjög mismunandi líkamlegar kröfur á okkur sem íþróttafólk. Hvaða íþrótt við erum að þjálfa í dag er svo samspil þeirra eiginleika sem fá að njóta sín í íþróttinni (íþróttin velur þig), og okkar áhuga.

Prófin þurfa að vera áreiðanleg, þ.e. að segja að mæla sama þáttinn eins, aftur og aftur og réttmæt. Það þýðir að þau þurfa að mæla það sem þau eiga að vera að mæla, og verður réttmætið alltaf metið af því hvaða próf er lagt fyrir hvern. Þolpróf fyrir sundmann verður því að fara fram í lauginni og hjólreiðafólk ætti að fá mælinguna sína á hjóli til að fá sem gagnlegastar niðurstöður svo tvö dæmi séu tekin.

Næst kemur spurningin um hvaða próf veita okkur bestu upplýsingarnar? Þau próf sem eru hvað líkust keppni eru talin sérhæfð og ættu að gefa okkur góðar vísbendingar um hvernig þjálfunin hefur tekist undangengin misseri. Vandinn við slík próf er að þau verða oft ansi flókin og tæknileg í útfærslu því hreyfingar eru í eðli sínu flóknar líkt og þær koma fyrir í íþróttinni sjálfri. Ef ætlunin að mæla oftar en einu sinni (sem ég mæli eindregið með), þá er hagkvæmara (tími, aðstaða, peningar) að velja próf sem eru frekar almenn (ekki keppnislík). Kostir þeirra eru m.a. að þau taka stuttan tíma, viðmið eru aðgengileg, þau eru ódýr, einfalt að gera aftur seinna á sama hátt.

Hér komum við svo að þeim þætti sem oftast klikkar og er einna tímafrekastur. Það er hvað gert er við gögnin eftir að tölum hefur verið safnað. Í okkar tilviki eru tölurnar notaðar til að búa til líkamlega einkunn, og til að upplýsa ykkur um stöðuna ykkar þar sem þið hafið aðgang að þeim til að meta og bera saman við fyrri árangur.

En hvað er góður árangur? Þarf ég að bæta mig í hvert skipti? Hvað er mikil bæting og hvað er lítil? Þessar spurningar eru eðlilegar þegar niðurstöðurnar liggja fyrir. Til að túlka þær og meta þróunina frá einum tímapunkti til annars er að ýmsu að hyggja. Að því gefnu að framkvæmd prófanna sé eins og áreiðanleg milli tveggja tímapunkta eru veigamestu þættirnir til túlkunar eru m.a.;

  • aldur íþróttamanns
  • líkamlegur þroski sérstaklega í kringum kynþroska
  • þjálfunaraldur
  • tímasetning á æfingatímabili
  • fyrri árangur íþróttamanns
  • meiðsli
  • dagsform
  • andlegir þættir á borð við áhuga, skuldbindingu og sjálfstraust
  • endurgjöf og eftirfylgni við niðurstöður prófa

með bestu kveðju

Sveinn Þorgeirsson

Landsliðsstyrkur veittur í 11. sinn

Frá 11. afhendingu landsliðsstyrk fyrir haustmisseri 2019. Frá vinstri, Sveinn verkefnisstjóri, Brynjólfur (sund), Jóhann Árni (fótbolti), Þórður Jökull (karate), Sigvaldi (blak), Ragna (sund) Bergrún (frjálsar íþróttir), Samuel (karate), Böðvar (golf), Gestur (borðtennis). Á myndina vantar Elínu (íshokkí), Valdísi (blak), Dagbjart (golf), Þórð (fótbolta) og Benedikt Gunnar (handbolti).

Elín Boamah Darkoh Alexdóttir fór í ferð með U20 ára kvennalandsliði Íslands í íshokkí til Skotlands

Benedikt Gunnar fór í ferð með U17 ára landsliði Íslands í handbolta á opna Evrópumótið í Gautaborg 30. júní – 6. júlí 2019. Liðið spilaði um 3 sætið og vann þann leikinn og fékk því brons. 

Samuel Josh Mazanillo Ramos karatemaður fór til Helsinki og keppti aftur í opna og -63 kg flokkinum og lenti í fyrsta í -63 og þriðja í opna. Í september varð hann svo Smáþjóðaleikameistari í -63 annað skiptið í röð. Í nóvember keppti hann á Norðurlandameistaramótinu á sterkt mót þar sem hann tapaði fyrsta bardaganum sínum.

Gestur Gunnarsson fór í A-landsliðsferð á alþjóðlega mótið Estonia open í Tallinn, Eistlandi. Árangur var ekki eins og vonir stóðu til en hann þó hafði sigur gegn einum afar sterkum leikmanni Lettlands. Hann öðlaðist mikla reynslu í þessari ferð og lærði mikið. Mótið stóð fór fram 28. nóv-1. des. 2019.
Þórður og Jóhann Árni með landsliði U19. Þeir spiluðu æfingaleiki gegn Finnlandi og Svíþjóð með u-19 landsliðinu þann 9. og 11. okt. 11. nóvember fóru þeir til Belgíu að keppa á undankeppni EM og gerðu góða ferð því eftir 3 leiki gegn Albaníu, Grikklandi og Belgíu komumst þeir upp úr riðlinum og eru komnir í milliriðla.
Á myndinni má sjá Davíð Gunnlaugsson kennara 2. frá vinstri. Böðvar er svo 4. frá vinstri og Kristófer Karl 5. frá vinstri.
Sigvaldi blakmaður í landsliðsbúningnum.
Valdís rétt fyrir leik með unglinga landsliði Íslands í blaki.
Ragna lengst til vinstri og Brynjólfur við hlið hennar. Ragna keppti á Norðurlandameistaramótinu í sundi helgina 28. nóvember til 1. desember og náði þriðja sæti í 800 metra skriðsundi og var nálægt sínum besta tíma. Þá tók hún einnig þátt í 4x200metra boðsundi með íslensku sveitinni.
Brynjólfur náði sér ekki alveg á skrið og var aðeins frá sínum bestu tímum en lenti samt í 2. sæti í 200 m flugsundi og 5. sæti í 100 og 200 metra baksundi 18 og eldri.
Bergún í langstökkinu þar sem hún keppti á heimsmeistaramótinu í frjálsum í Dubai. Hún keppti í 100m, 200m og langstökki. Í langstökki varð hún í fimmta sæti og bætti sinn persónulega árangur um 1cm, 4,27m. Í 100m náði hún besta tímanum á árinu þegar hún hljóp á 14,97s og var í 14. sæti. Í 200m bætti hún sig líka og hljóp á 31,30s og hafnaði í 15. sæti. 
Þórður á móti (ekki Norðurlandamótinu). Norðurlandameistaramót í karate var haldið í Kolding í Danmörku 23. nóvember. Þar keppti Þórður í flokki junior (16-17 ára) í kata. Lenti í öðru sæti, tapaði í úrslitum með hársbreidd.
Dagbjartur hér þriðji frá vinstri. Hann var valinn í A-landsliðið á síðasta ári.

Hvaða þjónustu fá nemendur á líkamlegum æfingum á afreksíþróttasviðinu?

pisitll eftir Valgerði Tryggvadóttur sjúkraþjálfara og Svein Þorgeirsson verkefnisstjóra

Valgerður er sjúkraþjálfari hjá Styrk ehf. og á afreksíþróttasviði Borgarholtsskóla.

Styrkteymi Afreksíþróttasviðs Borgarholtsskóla samanstendur af reyndum íþróttafræðingum og sjúkraþjálfara. Unnið er markvisst að því að kynna fyrir nemendum mismunandi þjálfunaráherslur til að hámarka árangur sinn í íþróttum. Það er lögð rík áhersla á að þau þekki líkama sinn og læri inn á sín mörk hvað þjálfunarálag varðar til að vinna gegn álagsmeiðslum. Þjálfarar mæta þeim því þar sem þau eru stödd í sinni íþrótt með tilliti til íþróttar og aðstoða við að stýra álaginu og æfa framhjá meiðslum.

Í þjálfuninni er farið yfir mikilvægi góðs grunnþols og þreyta nemendur þolpróf í upphafi annar.  Ef þörf er á fá nemendur leiðbeiningar varðandi hvernig má bæta þolið. Þolþjálfun bætir frammistöðu íþróttamannsins og hefur einnig forvarnargildi gagnvart meiðslum. Gott grunnþol flýtir fyrir endurheimt og gerir okkur kleift að klára æfingar og keppnir með góðri tækni og líkamsbeitingu. Það gerir það að verkum að við höfum úr fleiri hreyfingum að velja til að bregðast við mismunandi áreiti í keppni og drögum því úr endurteknu álagi á ákveðin svæði. Einnig bætir gott þol svefn og getur haft jákvæð áhrif á andlega líðan og einbeitingu til náms og keppni.

Algeng ástæða meiðsla við keppni er þegar leikmenn þurfa að stoppa hreyfingu sína skyndilega og því er farið vel yfir bremsuþátt hreyfinga í þjálfun okkar hjá afrekinu. Aðrir þættir sem lögð er rík áhersla á eru snerpa og viðbragð, tækni við almennar styrkjandi æfingar, hlaup og hopp. Stuðst m.a. við viðurkennt stökkprógramm sem heitir Sportsmetrics og sérstaklega hannað til að draga úr meiðslum og kenna uppstökks og lendingartækni í stigvaxandi útfærslum.

Þegar meiðsli gera vart við sig er nauðsynlegt að draga tímabundið úr álagi á meiðslasvæðinu. Það er mjög mikilvægt að draga ekki úr almennu æfingaálagi samhliða því. Ef það er dregið úr almennu æfingaálagi við meiðsli er hætta á að íþróttamaðurinn sé ekki í standi til að hefja æfingar og keppni af krafti aftur þegar búið er að vinna með meiðslin sjálf og hann verður því útsettari fyrir endurteknum meiðslum. Í meiðslum þarf íþróttamaðurinn því að taka ábyrgð á þjálfun sinni og vera hugmyndaríkur við að finna æfingar sem gera honum mögulegt að æfa af fullum krafti án þess að setja álag á meiðslasvæðið. Sjúkraþjálfari er til staðar á öllum æfingum afreksíþróttasviðsins til að ráðleggja nemendum varðandi meiðsli og æfingar.

Auk eftirlits sjúkraþjálfara með æfingum gefst nemendum kostur á einstaklingstíma í sjúkraþjálfun, utan skólatíma og án biðtíma, hjá Styrk sjúkraþjálfunarstofu á Höfðabakka 9. Best er að panta tíma í gegnum netfangið valgerdur@styrkurehf.is.