Morgunæfingar í boði afreksíþróttasviðs

Miðvikudaginn 10. febrúar ætlar afreksíþróttasviðið að bjóða upp á opnar æfingar sem hluta af dagskrá þemadaga skólans. Um er að ræða tvær æfingar sem hefjast kl. 9 og 10, og eru með sitt hvorri áherslunni. Fyrri æfingin er með áherslu á liðleika og síðari æfingin með áherslu á styrk.

Æfingarnar eru í umsjón Arnórs Ásgeirssonar íþróttafræðings og styrkþjálfara og Ölmu Kristmannsdóttur sjúkraþjálfara

kl. 9:00 – Opnar æfingar á afreksíþróttasviði – heimaæfingar – Áhersla á liðkun https://youtu.be/p90c7FAIZ-w

Tímaseðill:

Liðkun og flæði 15-20 mín (Alma)

Styrkur 15 mín (Arnór)

Teygjur og slökun 10 mín (Alma): 


kl. 10:00 – Opnar æfingar á afreksíþróttasviði – heimaæfingar – Áhersla á styrk

https://eu01web.zoom.us/j/5286151095

Tímaseðill:

Liðkun og flæði 10 mín (Alma)

Styrkur 25 mín (Arnór): 

Teygjur og slökun 10 mín (Alma)

gangi ykkur vel!

Umsóknir fyrir landsliðsstyrk afreksíþróttasviðs fyrir vor 2020

Sæl öll,

Þá hefur verið opnað fyrir umsóknir í landsliðsstyrk fyrir þessa önn. Tímabilið er frá 1. janúar til ferða sem farnar hafa verið til 22. apríl á þessu ári.  Ég veit að það hafa margar ferðir fallið niður að undanförnu því miður og því eflaust færri umsóknir en ella.

Umsóknarform fyrir styrk (ATH. Aðeins aðgengilegt með @bhs.is tölvupóstfanginu ykkar)

Frá síðustu afhendingu fyrir haust 2019

með bestu kveðju,

Sveinn verkefnisstjóri

Hreyfibingó í boði Afreksíþróttasviðs!

Hér að ofan er bingó-æfing í boði Arnórs Ásgeirssonar í styrkteymi afreksíþróttasviðsins. Hlaðið pdf skjalinu niður, prentið og setjið á ísskápinn t.d. Í skjalinu eru hlekkir á æfingarnar 🙂

LEIÐBEININGAR:

Markmið verkefnisins er að klára allar æfingar á bingóspjaldinu.

Tímaramminn er vikan 23. til 27.mars.    Nemendur hafa frjálsar hendur við framkvæmd æfinganna og geta því skipt þeim í nokkrar lotur. Það væri t.d. hægt að skipta “300 snerta gagnstæða öxl” í 10 lotur x 30 endurtekningar eða Tabata þar sem unnið er í 20 sek og hvílt í 10 sek, alveg þar til að öllum 300 endurtekningum er lokið.   Við mælum með að velja 4-5 æfingar til að gera á einum degi.

Gangi ykkur vel og góða helgi!

SÞ og Arnór Ásgeirsson

Landsliðsstyrkur veittur í 11. sinn

Frá 11. afhendingu landsliðsstyrk fyrir haustmisseri 2019. Frá vinstri, Sveinn verkefnisstjóri, Brynjólfur (sund), Jóhann Árni (fótbolti), Þórður Jökull (karate), Sigvaldi (blak), Ragna (sund) Bergrún (frjálsar íþróttir), Samuel (karate), Böðvar (golf), Gestur (borðtennis). Á myndina vantar Elínu (íshokkí), Valdísi (blak), Dagbjart (golf), Þórð (fótbolta) og Benedikt Gunnar (handbolti).

Elín Boamah Darkoh Alexdóttir fór í ferð með U20 ára kvennalandsliði Íslands í íshokkí til Skotlands

Benedikt Gunnar fór í ferð með U17 ára landsliði Íslands í handbolta á opna Evrópumótið í Gautaborg 30. júní – 6. júlí 2019. Liðið spilaði um 3 sætið og vann þann leikinn og fékk því brons. 

Samuel Josh Mazanillo Ramos karatemaður fór til Helsinki og keppti aftur í opna og -63 kg flokkinum og lenti í fyrsta í -63 og þriðja í opna. Í september varð hann svo Smáþjóðaleikameistari í -63 annað skiptið í röð. Í nóvember keppti hann á Norðurlandameistaramótinu á sterkt mót þar sem hann tapaði fyrsta bardaganum sínum.

Gestur Gunnarsson fór í A-landsliðsferð á alþjóðlega mótið Estonia open í Tallinn, Eistlandi. Árangur var ekki eins og vonir stóðu til en hann þó hafði sigur gegn einum afar sterkum leikmanni Lettlands. Hann öðlaðist mikla reynslu í þessari ferð og lærði mikið. Mótið stóð fór fram 28. nóv-1. des. 2019.
Þórður og Jóhann Árni með landsliði U19. Þeir spiluðu æfingaleiki gegn Finnlandi og Svíþjóð með u-19 landsliðinu þann 9. og 11. okt. 11. nóvember fóru þeir til Belgíu að keppa á undankeppni EM og gerðu góða ferð því eftir 3 leiki gegn Albaníu, Grikklandi og Belgíu komumst þeir upp úr riðlinum og eru komnir í milliriðla.
Á myndinni má sjá Davíð Gunnlaugsson kennara 2. frá vinstri. Böðvar er svo 4. frá vinstri og Kristófer Karl 5. frá vinstri.
Sigvaldi blakmaður í landsliðsbúningnum.
Valdís rétt fyrir leik með unglinga landsliði Íslands í blaki.
Ragna lengst til vinstri og Brynjólfur við hlið hennar. Ragna keppti á Norðurlandameistaramótinu í sundi helgina 28. nóvember til 1. desember og náði þriðja sæti í 800 metra skriðsundi og var nálægt sínum besta tíma. Þá tók hún einnig þátt í 4x200metra boðsundi með íslensku sveitinni.
Brynjólfur náði sér ekki alveg á skrið og var aðeins frá sínum bestu tímum en lenti samt í 2. sæti í 200 m flugsundi og 5. sæti í 100 og 200 metra baksundi 18 og eldri.
Bergún í langstökkinu þar sem hún keppti á heimsmeistaramótinu í frjálsum í Dubai. Hún keppti í 100m, 200m og langstökki. Í langstökki varð hún í fimmta sæti og bætti sinn persónulega árangur um 1cm, 4,27m. Í 100m náði hún besta tímanum á árinu þegar hún hljóp á 14,97s og var í 14. sæti. Í 200m bætti hún sig líka og hljóp á 31,30s og hafnaði í 15. sæti. 
Þórður á móti (ekki Norðurlandamótinu). Norðurlandameistaramót í karate var haldið í Kolding í Danmörku 23. nóvember. Þar keppti Þórður í flokki junior (16-17 ára) í kata. Lenti í öðru sæti, tapaði í úrslitum með hársbreidd.
Dagbjartur hér þriðji frá vinstri. Hann var valinn í A-landsliðið á síðasta ári.

Hvaða þjónustu fá nemendur á líkamlegum æfingum á afreksíþróttasviðinu?

pisitll eftir Valgerði Tryggvadóttur sjúkraþjálfara og Svein Þorgeirsson verkefnisstjóra

Valgerður er sjúkraþjálfari hjá Styrk ehf. og á afreksíþróttasviði Borgarholtsskóla.

Styrkteymi Afreksíþróttasviðs Borgarholtsskóla samanstendur af reyndum íþróttafræðingum og sjúkraþjálfara. Unnið er markvisst að því að kynna fyrir nemendum mismunandi þjálfunaráherslur til að hámarka árangur sinn í íþróttum. Það er lögð rík áhersla á að þau þekki líkama sinn og læri inn á sín mörk hvað þjálfunarálag varðar til að vinna gegn álagsmeiðslum. Þjálfarar mæta þeim því þar sem þau eru stödd í sinni íþrótt með tilliti til íþróttar og aðstoða við að stýra álaginu og æfa framhjá meiðslum.

Í þjálfuninni er farið yfir mikilvægi góðs grunnþols og þreyta nemendur þolpróf í upphafi annar.  Ef þörf er á fá nemendur leiðbeiningar varðandi hvernig má bæta þolið. Þolþjálfun bætir frammistöðu íþróttamannsins og hefur einnig forvarnargildi gagnvart meiðslum. Gott grunnþol flýtir fyrir endurheimt og gerir okkur kleift að klára æfingar og keppnir með góðri tækni og líkamsbeitingu. Það gerir það að verkum að við höfum úr fleiri hreyfingum að velja til að bregðast við mismunandi áreiti í keppni og drögum því úr endurteknu álagi á ákveðin svæði. Einnig bætir gott þol svefn og getur haft jákvæð áhrif á andlega líðan og einbeitingu til náms og keppni.

Algeng ástæða meiðsla við keppni er þegar leikmenn þurfa að stoppa hreyfingu sína skyndilega og því er farið vel yfir bremsuþátt hreyfinga í þjálfun okkar hjá afrekinu. Aðrir þættir sem lögð er rík áhersla á eru snerpa og viðbragð, tækni við almennar styrkjandi æfingar, hlaup og hopp. Stuðst m.a. við viðurkennt stökkprógramm sem heitir Sportsmetrics og sérstaklega hannað til að draga úr meiðslum og kenna uppstökks og lendingartækni í stigvaxandi útfærslum.

Þegar meiðsli gera vart við sig er nauðsynlegt að draga tímabundið úr álagi á meiðslasvæðinu. Það er mjög mikilvægt að draga ekki úr almennu æfingaálagi samhliða því. Ef það er dregið úr almennu æfingaálagi við meiðsli er hætta á að íþróttamaðurinn sé ekki í standi til að hefja æfingar og keppni af krafti aftur þegar búið er að vinna með meiðslin sjálf og hann verður því útsettari fyrir endurteknum meiðslum. Í meiðslum þarf íþróttamaðurinn því að taka ábyrgð á þjálfun sinni og vera hugmyndaríkur við að finna æfingar sem gera honum mögulegt að æfa af fullum krafti án þess að setja álag á meiðslasvæðið. Sjúkraþjálfari er til staðar á öllum æfingum afreksíþróttasviðsins til að ráðleggja nemendum varðandi meiðsli og æfingar.

Auk eftirlits sjúkraþjálfara með æfingum gefst nemendum kostur á einstaklingstíma í sjúkraþjálfun, utan skólatíma og án biðtíma, hjá Styrk sjúkraþjálfunarstofu á Höfðabakka 9. Best er að panta tíma í gegnum netfangið valgerdur@styrkurehf.is.

Opnað fyrir umsóknir um landsliðsstyrk vorsins 2019

Kæru nemendur,

Hér má nálgast hlekkinn til að sækja um landsliðsstyrkinn hjá okkur fyrir tímabilið frá síðustu afhendingu í desember 2018. Nánar um reglur styrksins má sjá hér: http://afrek.bhs.is/?page_id=1081 

Hér er svo sjálft umsóknareyðublaðið og fresturinn er til 6. maí nk. og afhendingin fer fram þann 8. kl. 12:30 í Borgarholtsskóla.

https://goo.gl/forms/B0MEFVJvVFswETMg2

Þessi mynd er frá afhendingunni núna í desember sl.

Með bestu kveðju

SÞ og kennarar

Landsliðsstyrkur fyrir haust 2018 afhentur í Borgarholtsskóla

Miðvikudaginn 9. janúar var landsliðsstyrkur afreksíþróttasviðs afhentur

Frá 9. afhendingu landsliðsstyrks afreksíþróttasviðs Borgarholtsskóla fyrir haust 2018. Efri röð frá vinstri; Ásta aðstoðarskólameistari, Jónína, Þorleifur, Goði, Hafsteinn Óli, Arnar  (handbolti), Brynjólfur (sund), Þórður (karate), Kristófer og Dagbjartur (golf) og Sveinn verkefnisstjóri. Neðri röð frá vinstri; Sigvaldi (blak), Arnór (handbolti) Bergrún (frjálsar), Þórunn (borðtennis), Ragna (sund), Helga (frjálsar) og Axel (handbolti). Á myndina vantar Magnús Gauta (borðtennis).

Þau voru mörg og fjölbreytt verkefnin sem landsliðsfólkið okkar tók þátt í fyrir áramót. Hér erum við með yfirlit þeirra verkefna frá því fyrir áramót.

Sigvaldi í stólnum til hægri

Sigvaldi Örn blakmaður úr Aftureldingu var tvívegis valinn í landslið Íslands í blaki árið 2018. Hann var valinn í U-19 landsliðið sem tók þátt í NEVZA 2018 í Færeyjum í mars og í U-17 landsliðið sem tók þátt í NEVZA U-17 liða í Danmörku í október.

Magnús á vinstri hönd

Magnús Gauti borðtennismaður ársins 2018 hjá sínu sérsambandi tók þátt í Evrópumóti fullorðinna í Alicante dagana 18 – 23. september. Mótið var afskaplega erfitt segir Magnús en víst að þarna hefur hann nælt sér í góða reynslu enda ungur að árum.

Þórunn lengst til vinstri

Þórunn Ásta borðtenniskona fór til Eistlands með unglingalandsliðinu að keppa við stöllur sínar af Norðurlöndunum síðasta sumar og er reynslunni ríkari eftir þá ferð.

Bergrún Ósk íþróttakona fatlaðra keppti  á Evrópumeistaramóti fatlaðra í Berlín. Þar tók hún þátt í fjórum greinum 400m (4. sæti), 200m (3ja sæti), 100m (3ja sæti) og langstökki (2. sæti) ásamt því að bæta persónulegan árangur í öllum greinunum. 

Helga hér til hægri

Helga Þóra var valin til að taka þátt á Norðurlandamótinu U20 í Danmörku í Hvidovre þar sem hún tók þátt í  hástökkskeppni fyrir hönd Íslands og Danmerkur (sameiginlegt lið) og stökk hún 1,66 metra sem er aðeins frá hennar besta sem er 1,74m og endaði í 6. sæti.

Dagbjartur kylfingur keppti með landsliðsliði pilta á síðasta ári og vann það sér rétt til þátttöku í A- deild  með árangri sínum. Dagbjartur hefur verið mjög duglegur að taka keppa undanfarið ár og hefur það gengið mjög vel og hann er m.a.  Íslandsmeistari í sínum aldursflokki 2 ár í röð og Klúbbmeistari GR.

Kristófer Karl golfari keppti fyrir Íslands hönd á EM í Búdapest. Þar tók hann átt í liðakeppni þar sem þeir drengir lönduðu 3. sæti og komust upp í aðra deild.

Hafsteinn Óli í efri röð fyrir miðju nr. 10, Þorleifur 4. frá hægri í efri röð. Neðri röð frá hægri, Arnór Snær, Goði Ingvar og Arnar Máni.

Hafsteinn Óli, Goði Ingvar, Arnar Máni, Arnór Snær og Þorleifur Rafn handboltamenn tóku þátt með U18 ára landsliði Íslands á EM í Króatíu síðasta haust. Þar var árangurinn hreint út sagt frábær og hafnaði liðið í 2. sæti.

Axel neðst til vinstri

Axel Hreinn ásamt fleirum af afrekssviðinu keppti með U18 á Sparkassen móti með handboltalandsliðinu milli jóla og nýárs. Liðið hafnaði í 3ja sæti eftir gott mót.

Benedikt lengst til vinstri

Benedikt Gunnar keppti á æfingamóti með U-17 ára landsliði í handbolta. Leikið var í Lille í Frakklandi 24. – 28. október sl.. Liðin sem tóku þátt voru auk Íslands, Frakkland, Króatía og Sviss. Liðið vann einn leik, gerði eitt jafntefli og tapaði einum.

Þórður Jökull karate maður keppti á tveim alþjóðlegum mótum með landsliði Íslands nú í haust. Í byrjun september keppti hann á Finnish Open Cup í Helsinki í tveim flokkum, í kata junior og í kata senior. Í lok nóvember keppti hann á Norðurlandameistaramótinu í karate í kata junior og hópkata karla (male team kata).

Jónína nr. 18 í efri röð

Jónína  Hlín handboltakona fór ásamt U18 ára landsliði kvenna til Púchov í Slóvakíu. Þar kepptu þær þrjá vináttulandsleiki við Slóvakíu. Þær töpuðu fyrstu tveimur leikjunum en sigruðu seinasta leikinn.

Brynjólfur Óli sundmaður fór fyrst til Argentínu að keppa á Youth Olympic Games sem var haldið í Buenos Aires í október. Þar keppti hann í 50 og 200m baksundi. Þá keppti hann á Norðurlandameistaramótinu sem var haldið í Finnlandi í 50, 100 og 200m baksundi, og komst inn í úrslit og bætti sig í 100 og 200 baki.

Ragna í neðri röð, fjórða frá hægri

Ragna Sigríður sundkona fór á Norðurlandameistaramótið sem fór fram í Oulu í Finnlandi þar sem henni gekk vel og komst hún í úrslit með persónulegum bætingum.

Til hamingju öll – og haldið áfram þessu góða striki!

Sveinn Þorgeirsson, verkefnisstjóri