Gróska í faraldri

Vikurnar áður en samkomubannið tók gildi fjallaði fræðsluþema afreksíþróttasviðsins um gróskuhugarfar (e. growth mindset). Rannsóknir hafa sýnt að með fræðslu um eiginleika og kosti þessa hugarfars má bæta árangur í leik og starfi. Þetta hugarfar hefur nefnilega tengingu við svo margt sem við fáumst við í daglegu lífi og í okkar tilfelli skóla og íþróttum.

            Það má til einföldunar stilla upp tveimur valkostum við það hvernig við nálgumst erfið verkefni eins og áskoranir og mistök. Við getum litið á þær sem ógn og þannig forðast þær og kviðið fyrir þeim. Sú nálgun hefur verið kölluð fastmótað hugarfar (e. fixed mindset) og er það ekki vænlegt til árangurs. Hún leiðir til þess að við höldum okkur við það sem við vitum að við getum, prófum fátt nýtt og förum síður út fyrir þægindarammann. Þetta kemur heim og saman við helstu einkenni fastmótaðs hugarfars – það er að hafa ekki þá trú að viðkomandi geti tileinkað sér þá færni sem til þarf.

            Þau okkar sem hafa ræktað með sér gróskuhugarfar í mistökum og áskorunum takast á við mistök og áskoranir á annan hátt. Þó áskorunin sé mikil og færnin ekki til staðar þýðir það ekki að svo verði alltaf hafi viðkomandi tileinkað sér gróskuhugarfar. Hann trúir því að mistök séu hluti af því að læra, áskoranir séu eftirsóknarverðar og að vinnusemi muni skila honum árangri að lokum. Það sem skilur á milli nálgunar gróskuhugarfars annars vegar og fastmótaðs hugarfars hins vegar gerir gæfumuninn. Hvernig hugarfar við temjum okkur er geysilega mikilvægt því það á þátt í svo mörgum ákvörðunum okkar á hverjum degi. Fram undan er tækifæri til að byggja upp nýjar venjur, losa sig við slæma siði og upplifa breyttan veruleika um stund.