Pistill frá verkefnisstjóra (áður birtur í Grafarvogsblaðinu)

Hvernig starfar afreksíþróttasvið á tímum kórónaveiru? Þegar aðalatriðið í náminu er þjálfun í keppnisíþróttum og samstarf við þjálfara og samnemendur?

Við höfum reynt að draga fram aðrar sterkar hliðar á starfi sviðsins eins og kostur hefur verið. Við sníðum umhverfið á sviðinu okkar þannig að það styðji við íþróttaþátttöku og árangur í keppni eins vel og hægt er. Helstu áherslur okkar undanfarið hafa verið að styðja við nemendur með hagnýtum verkefnum, sem eru unnin rafrænt, í bland við líkamlega þjálfun á heimavelli með æfingaáætlunum frá fagfólkinu okkar.

Það er lítið um verklega þjálfun þessa dagana vegna heimsfaraldurs.

Við vitum að álag á nemendur í framhaldsskóla er mikið, og ekki bætir heimsfaraldur úr skák. Við höfum eftir fremsta megni reynt að styðja við bakið á nemendum með samtali við þá og hóflegu verkefnaálagi, milli þess sem við höfum fengið þau til okkar í íþróttahúsið.

Við höfum meðal annars boðið nemendum upp á ráðgjöf í formi viðtala við kennarana okkar um afmarkaða frammistöðuþætti sem ættu að hjálpa nemendum að halda dampi á óreglulegum tímum. Þar má nefna viðtal við sjúkraþjálfara vegna meiðsla og endurhæfingar, við íþróttasálfræðiráðgjafa vegna endurskipulagningar á markmiðum og endurgjöf á sálfræðipróf sem þau hafa tekið hjá okkur, viðtöl við íþróttafræðinga vegna æfingaáætlana og einkatíma hjá næringarfræðingi.

Eitt af áhugaverðari verkefnum vorsins var í formi myndskeiðs sem nemendur bjuggu til í kringum greiningu sem þau unnu á sér. Nemendur greindu eigin styrkleika, veikleika, tækifæri og ógnanir í þeirri stöðu sem upp var komin í tengslum við þeirra nám og íþróttaiðkun. Í vel skipulögðu þriggja mínútna myndskeiði tókst nemendum almennt vel að svara þessum fjölþættu spurningum.

Það er okkar helsta markmið að útskrifa nemendur með aukna þekkingu á þeim þáttum sem eru mikilvægir til árangurs í íþróttum og námi. Auka líkamlega, félagslega og hugarfarslega færni þeirra tengd íþróttaiðkun þeirra og hæfni í því að meta eigin framþróun sem íþróttafólks. Þannig geta þau síðar orðið sínir eigin þjálfarar, sem hafa tilfinningu fyrir þáttum sem hafa áhrif á frammistöðu þeirra, bæði líkamlega og hugarfarslega en einnig í umhverfi þeirra því enginn nemandi nær toppárangri án þess að hafa sterkt bakland. Við lítum svo á að við séum mikilvægur hlekkur í baklandi okkar nemenda.

Sveinn Þorgeirsson, verkefnisstjóri

pistill birtist áður í Grafarvogsblaðinu