Óvenju stór og glæsilegur hópur nemenda útskrifaðist frá afreksíþróttasviði Borgarholtsskóla í desember síðastliðnum. Nemendurnir höfðu lokið 6 áföngum á afrekinu og fengu öll útskriftargjöf frá sviðinu sem samkvæmt venju var POLAR púlsklukka. Þó nokkrir höfðu lokið nokkrum áföngum á afreksíþróttasviðinu og óskum við þeim einnig til hamingju með útskriftina.

Eins og svo oft áður voru afreksíþróttanemendur fyrirferðarmiklir á útskrift. Þar má nefna að tónlistaratriðin flutti dúx útskriftarinnar og handknattleiksmaðurinn úr Víking hann Logi Gliese Ágústsson. Þar að auki flutti Thea Imani Sturludóttir handknattleikskona og landsliðskona úr Fylki ávarp útskriftarnemenda. Þar að auki sópuðu nemendur af afreksíþróttasviðinu til sín verðlaunum, svo mörgum að ég man þau ekki öll og læt því ógert að nefna einhver og gleyma öðrum 🙂 Innilega til hamingju engu að síður!

Að lokum er vert að geta þess að þetta var fyrsti hópurinn sem útskrifast frá afreksíþróttasviðinu með ÍSÍ þjálfarastig 1. Þeir hópar sem innritast frá og með haustinu 2016 fá stig 1. og 2. að því gefnu að þau hafi gilt skyndihjálparnámskeið (verður í boði í Borgarholtsskóla fyrir þau) og þjálfarareynslu uppáskrifaða af sínu félagi.
Við erum ákaflega stolt af þessum nemendum okkar og óskum þeim velfarnaðar í framtíðinni!
Sveinn Þorgeirsson